Leitaði að upplýsingum um Kennedy-morðið

Trump særðist á eyra þegar Crooks skaut að honum.
Trump særðist á eyra þegar Crooks skaut að honum. AFP/ANNA MONEYMAKER

Thomas Matthew Crooks, maðurinn sem reyndi að ráða Donald Trump af dögum hinn 13. júlí síðastliðinn, leitaði að upplýsingum um morðið á John F. Kennedy Bandaríkjaforseta í nóvember 1963 nokkrum dögum áður en hann reyndi að skjóta Trump. 

Christopher Wray, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, greindi frá því við dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fyrr í kvöld, að Crooks hefði m.a. leitað að upplýsingum um það hversu langt Lee Harvey Oswald hefði verið frá Kennedy þegar hann skaut Kennedy í Dallas hinn 22. nóvember 1963. 

Christopher Wray sat fyrir svörum þingnefndar í dag um banatilræðið …
Christopher Wray sat fyrir svörum þingnefndar í dag um banatilræðið við Trump. AFP/Chris Kleponis

Þá greindi Wray frá því að Crooks hefði flogið dróna yfir svæðið í Butler í Pennsylvaníu þar sem tilræðið var framið nokkrum klukkustundum áður en Trump hélt þar kosningafund sinn. Fór dróninn ekki beint yfir sviðið sem Trump myndi standa á, en Crooks flaug honum rétt hjá vöruhúsinu þar sem hann sjálfur kom sér fyrir síðar um daginn.

Dróninn fannst í bifreið Crooks eftir tilræðið ásamt tveimur sprengjum, en Wray sagði bæði að þær bentu til þess að Crooks hefði ætlað sér að valda meiri usla eftir tilræðið, en einnig að sprengjurnar hefðu ekki verið virkar þegar tilræðið var framið. „Þær voru engu að síður hættulegar“, sagði Wray.

Engin ástæða fundin enn 

Wray sagði meðlimum þingnefndarinnar að enn hefði ekki fundist nein ástæða fyrir því af hverju Crooks hefði reynt að ráða Trump af dögum, en að þetta væri ein af grundvallarspurningum rannsóknarinnar. 

Sagði Wray að Crooks hefði leitað að mörgum þekktum einstaklingum almennt, en að engin sérstök tengsl eða mynstur hefðu komið í ljós, en fjölmiðlar vestanhafs höfðu áður greint frá því að Crooks hefði leitað að bæði Trump og Biden dagana fyrir tilræðið. 

Þá hefði leit í hefðbundnum gagnasöfnum ekki skilað neinu sem benti til ástæðu eða nokkurrar hugmyndafræði sem Crooks hefði aðhyllst. Hann hefði þó byrjað að rannsaka kosningafundinn í Butler ákaft um viku áður en fundurinn var haldinn, en Crooks skráði þátttöku sína í honum 6. júlí. 

Trump bar sig vel eftir tilræðið og steitti hnefa í …
Trump bar sig vel eftir tilræðið og steitti hnefa í átt að stuðningsmönnum sínum til að sýna að hann væri í lagi. AFP/Rebecca Droke

Þann sama dag hefði Crooks slegið upp í leitarvélinni Google spurningunni um hversu langt Oswald hefði verið frá Kennedy, og sagði Wray það sýna nokkuð um hugarástand Crooks á þeim tíma. 

Þá hefði ekkert komið í ljós sem benti til þess að Crooks hefði átt sér einhverja vitorðsmenn, heldur virðist hann hafa verið einfari. 

Wray greindi einnig frá því að enn væri ekki vitað hvort að byssukúla eða brot úr einhverju öðru hefði valdið sárinu sem Trump fékk á hægra eyrað þegar tilræðið var framið. 

Þá sagði Wray að hríðskotariffillinn sem Crooks notaði hefði verið með byssuskefti sem hægt var að brjóta saman, sem aftur gæti útskýrt hvers vegna ekkert vitni hefði komið fram sem hefði séð Crooks með riffilinn í fórum sínum fyrr en hann var kominn upp á þak vöruhússins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert