Níu fórust með norska skipinu

Argos Georgia, sem hér sést á siglingu, sökk úti fyrir …
Argos Georgia, sem hér sést á siglingu, sökk úti fyrir Falklandseyjum á mánudagskvöld og er nú staðfest að níu úr áhöfn eru látnir en fjögurra er enn saknað. Ljósmynd/Facebook-síða Argos Froyanes

Níu manns úr áhöfn fiskiskipsins Argos Georgia eru látnir svo staðfest sé og fjögurra saknað en skipið, sem norska fyrirtækið Argos Froyanes á og norska útgerðin Ervik Havfiske gerir út, fórst úti fyrir strönd Falklandseyja á mánudagskvöld.

Af 27 manna áhöfn frá Spáni, Úrúgvæ, Rússlandi, Perú og Indónesíu björguðust fjórtán manns en níu eru taldir af. Frá þessu greina spænskir fjölmiðlar í dag auk þess sem spænski utanríkisráðherrann José Manuel Albares greinir AFP-fréttastofunni frá mannskaðanum.

Eftir því sem norska ríkisútvarpið NRK hefur eftir Per Hognaland hjá björgunarmiðstöð Suður-Noregs var áhöfnin komin í björgunarbátana um hálftíma eftir að skipið sendi frá sér alþjóðlega neyðarkallið Mayday.

Tveir björgunarbátar fundust

Veitir Hognaland enn fremur þær upplýsingar að aftakaveður á svæðinu hafi torveldað leitina að mannskapnum mjög, hafi til dæmis ekki verið unnt að beita þyrlu við leitina vegna vindhraða sem var um 34 metrar á sekúndu þegar verst lét. Í nótt var aðeins eitt skip við leit á svæðinu.

„Nú er áætlað að framkvæma nýja leit úr flugvél, en það er háð því að ekki sé þungskýjað á svæðinu og skilyrði séu góð.

Það var um níuleytið á mánudagskvöldið að norskum tíma sem neyðarkall barst frá skipinu og síðdegis í gær höfðu tveir björgunarbátar fundist, annar með þrettán manns innanborðs en hinn með tveimur og reyndist annar þeirra látinn.

Manneskjurnar það sem máli skiptir

Robert Ervik, forstjóri útgerðarinnar Ervik Havfiske, segir við NRK að tilhugsunin um þá sem létust sé skelfileg. „Skipið er bara skrokkur, manneskjurnar eru það sem máli skiptir,“ segir Ervik sem skrifaði á Facebook-síðu fyrirtækisins í gærkvöldi að það hygðist bíða með að senda frá sér fréttatilkynningu þar til full yfirsýn hefði fengist yfir atburði á slysstað.

Stjórnvöld á Falklandseyjum hafa þegar sent frá sér tilkynningu þar sem öllum þeim, sem að björguninni komu, er þakkað framlag þeirra.

NRK

The Guardian

CNN

Merco Press

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert