„Nytsamir sakleysingjar Írans“

Benjamín Netanjahú sagði að ætlun Ísraels væri ekki að festa …
Benjamín Netanjahú sagði að ætlun Ísraels væri ekki að festa rætur á Gasa, heldur að byggja upp borgaralegt afl á svæðinu undir stjórn Palestínumanna. AFP/Michael A. McCoy

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, ávarpaði Bandaríkjaþing fyrr í dag. Hann hvatti þar til frekari samstöðu Bandaríkjanna og Ísraelsríkis og sagði að Ísrael hefði ekki í hyggju að festa rætur á Gasasvæðinu. 

Þá skaut Netanjahú föstum skotum á Íran, sem og fólk sem hefur mótmælt aðgerðum Ísraelsmanna í átökunum, sem hann sagði vera „nytsama sakleysingja Írans“.

Ógnaröxulveldi Mið-Austurlanda

Netanjahú sagði átökin sem geisa á Gasasvæðinu ekki vera átök tveggja siðmenninga, heldur væru þau átök milli siðmenningar annars vegar og villimennskunnar hins vegar. 

Þá hvatti hann til frekari samstöðu á milli Bandaríkjanna og Ísraels, og sagði Íran og bandamenn Írans vera ógnaröxulveldi Mið-Austurlanda. 

Netanjahú ávarpaði Bandaríkjaþing fyrr í dag.
Netanjahú ávarpaði Bandaríkjaþing fyrr í dag. AFP/Drew Angerer

Nokkur hundruð mótmælendur komu saman fyrir utan þinghúsið til að mótmæla heimsókn Netanjahús, en einnig voru mótmæli í öðrum borgum Bandaríkjanna. Beittu lögreglumenn piparúða á hluta þeirra mótmælenda sem voru við þinghúsið. 

„Skilaboð mín til mótmælenda eru þessi: Þegar einræðisherrarnar í Teheran, sem hengja samkynhneigða og myrða konur fyrir að hylja ekki hárið sitt, sýna ykkur stuðning, vekja athygli á ykkur og styrkja ykkur, þá hafið þið opinberlega gerst nytsamir sakleysingjar Írans,“ sagði Netanjahú. 

Vill borgaralegt afl undir stjórn Palestínumanna

„Daginn sem við sigrumst á Hamas, getur Gasasvæðið risið á ný. Ég sé fyrir mér Gasa án hernaðar- og öfgaafla,“ sagði hann og að það væri ekki ætlun Ísraelsríkis að festa rætur á Gasa, heldur að byggja upp borgaralegt afl á svæðinu undir stjórn Palestínumanna. 

„Á Gasasvæðinu ætti að vera borgaralegt afl undir stjórn Palestínumanna. Afl sem sækist ekki eftir eyðileggingu Ísraels,“ sagði hann. 

Hrósaði Trump og Biden í senn

Netanjahú hrósaði Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir þrotlaust starf í þágu gíslanna í haldi Hamas.

Þá hrósaði hann einnig Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í hástert. Hann hrósaði Trump fyrir fjölda málefna. 

Nefndi hann í því samhengi Abraham-samkomulagið, viðurkenningu Trumps á óskoruðu valdi Ísraels á Gólanhæðum og fyrir að sporna gegn yfirgangi Írans, sem og viðurkenningu Trumps á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og ákvörðun hans um að flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað. 

Netanjahú sagði mótmælendur átakanna vera „nytsama sakleysingja Írans“. .
Netanjahú sagði mótmælendur átakanna vera „nytsama sakleysingja Írans“. . AFP/Michael A. McCoy
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert