Verslunareigandi í Suður-Stokkhólmi hefur um nokkurt skeið sætt kúgunartilburðum og hótunum glæpagengis sem krefur hann um „verndargreiðslur“ sem skilyrði þess að hann fái að sinna rekstri sínum óáreittur.
„Þeir slógu mig og miðuðu skammbyssu á höfuð mitt,“ segir kaupmaðurinn við sænska ríkisútvarpið SVT og ber hann glögg merki þess eftir því sem fréttamaður ríkisútvarpsins vottar. Maðurinn er marinn og blár.
Kröfur kúgaranna eru 300.000 króna upphafsgreiðsla, jafnvirði rúmlega 3,8 milljóna íslenskra króna, og í kjölfarið 50.000 krónur á mánuði, ríflega 640.000 íslenskar. Hverjum degi vanskila fylgir 100.000 króna sekt, tæplega 1,3 milljónir.
Þá greinir maðurinn frá því að honum og fjölskyldu hans hafi verið hótað lífláti og hafi hann til öryggis sent fjölskylduna til heimalands hennar en hefst sjálfur við í bifreið sinni eftir að innheimtumennirnir birtust á heimili hans.
„Ég verð drepinn, ég ætla að fara frá Svíþjóð,“ segir maðurinn sem gekk tímunum saman um umhverfi lögreglustöðvar borgarhlutans án þess að þora inn. Að lokum kveðst hann hafa brostið í grát fyrir utan og hafi þá tveir lögregluþjónar komið til hans og innt hann eftir ástandi hans. Þá hafi hann greint frá öllu og lagt fram kæru á hendur kúgurunum.
Lögregla fékk því næst aðgang að efni öryggismyndavéla úr versluninni og hefur nú séð mennina en ekki borið kennsl á þá. Hefur SVT enn fremur fengið að sjá myndefnið.
Lögreglu þykir málið hins vegar ekki nægilega alvarlegt til að aðhafast, hótanirnar í garð mannsins séu ekki þess eðlis að hann teljist eiga rétt á lögregluvernd.
Ræðir SVT við afbrotafræðinginn Ardavan Khoshnood sem segir mál af þessu tagi erfið. Þau krefjist margra klukkustunda eftirlitsvinnu af hálfu lögreglu ætli hún sér að geta borið kúgarana sökum.
Verslunareigandinn segist að lokum vilja greina frá málinu í fjölmiðlum geti vitneskjan um það hjálpað öðrum. SVT hefur sent lögreglunni í Stokkhólmi fyrirspurn um málið.