Afhendir yngri kynslóðum keflið

Biden flutti ávarp sitt frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu.
Biden flutti ávarp sitt frá forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. AFP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði í nótt bandarísku þjóðina í fyrsta sinn frá því að hann tilkynnti um ákvörðun sína um að hætta við forsetaframboð.

Allar helstu sjónvarpsstöðvar Bandaríkjanna fluttu ávarp Bidens í beinni útsendingu, en það var flutt um miðnætti að íslenskum tíma. Biden hrósaði þar sérstaklega Kamölu Harris varaforseta, og sagði hana bæði harða af sér og mjög hæfa, en Harris hefur nú þegar tryggt sér nægan stuðning til þess að fá útnefningu Demókrataflokksins á landsfundi hans í næsta mánuði. 

Biden sagði að það hefði verið mestu forréttindi ævi sinnar að fá að þjóna bandarísku þjóðinni í rúmlega hálfa öld, en að nú væri kominn tími til að stíga til hliðar. „Að verja lýðræðið, sem er nú undir, er mikilvægara en nokkur vegtylla,“ sagði Biden í ávarpinu. „Ég hef ákveðið að besta leiðin fram á við sé að afhenda kyndilinn nýrri kynslóð. Það er besta leiðin til að sameina þjóð okkar,“ sagði Biden m.a. í ávarpi sínu. 

Enginn forseti í sögu Bandaríkjanna hefur dregið framboð sitt í hlé jafnskömmu fyrir kosningar, en spurningar höfðu vaknað innan Demókrataflokksins hvort Biden gæti sinnt starfinu næstu fjögur árin eða náð endurkjöri eftir laka frammistöðu hans í kappræðum gegn Donald Trump í síðasta mánuði. 

Biden kallaði eftir því í ávarpi sínu að hinir miklu flokkadrættir sem nú einkenndu bandarísk stjórnmál myndu víkja fyrir nýrri samstöðu, þar sem hugmyndin um Bandaríkin væri „öflugri en nokkur harðstjóri eða einræðisherra.“ Sagði Biden að staður og stund væri til að hlýða á nýjar og ferskar raddir og að sá staður og stund væru runnin upp núna. 

Biden hét því einnig að hann myndi einbeita sér næsta hálfa árið að því að koma ýmsum stefnumálum sínum í gegn og nefndi meðal annars að lækka útgjöld fjölskyldna og að verja hin ýmsu réttindi, þar á meðal réttinn til þungunarrofs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert