Eitrað vinnuumhverfi í kringum Kamölu rifjað upp

Ef repúblikanar hefðu fengið að velja mótframbjóðanda sem hefði getað komið í stað Joe Bidens Bandaríkjaforseta, þá hefði Kamala Harris, varaforseti bandaríkjanna, verið ofarlega á listanum.

Þetta segir blaðamaðurinn Hermann Nökkvi Gunnarsson í nýjasta þætti Dagmála þar sem Andrés Magnússon ræðir við Hermann og Friðjón R. Friðjónsson almannatengil um forsetaframboð Kamölu Harris.

Í þættinum er farið vítt og breitt um kosti og galla Kamölu og almennar vendingar vestanhafs í stjórnmálunum.

Hrundi í könnunum eftir góða byrjun

Hermann bendir á að Kamala Harris hafi boðið sig fram í forvali demókrata fyrir síðustu forsetakosningar en hafi gengið mjög illa.

„Einmitt þá fékk hún fljúgandi start, alveg eins og hún er að fá í dag, en hún hrundi í könnunum,“ segir Hermann.

Hann bendir á að oft hafi verið rætt um að það sé eitrað vinnuumhverfi í kringum hana sem getur verið mjög slæmt í kosningabaráttu.

„Hún byrjaði í Hvíta húsinu með 47 starfsmenn, það eru af fimm af þessum 47 sem eru enn þá starfandi þarna. Það er gífurleg starfsmannavelta. Það var líka í kosningabaráttunni hennar þegar hún bauð sig fram í forvali demókrata,“ segir Hermann og vísar í umfjöllun Axios um starfsmannaveltuna.

„Hún var lélegur frambjóðandi þá“

„Þegar hún bauð sig fram 2019 fyrir forsetakosningarnar 2020 lenti hún í mikilli starfsmannaveltu hjá sér,“ segir Friðjón og bætir við:

„Það var mikill orðrómur um það. Það var mikið talað um það að fólk var að yfirgefa kosningabaráttuna vegna eitraðs umhverfis. Hún var lélegur frambjóðandi þá. Hún lenti líka í því að vera rangur frambjóðandi, á röngum tíma í vitlausu húsi,“ segir Friðjón.

Hann vísar í ferill hennar sem saksóknara og hvernig það samræmdist ekki alveg áherslum margra demókrata á þeim tíma.

„Það er fræg klippa þegar Tulsi Gabbard hjólar í hana í kappræðunum sem þá voru haustið 2019, þar sem hún eiginlega afgreiðir hana fyrir það að hafa sent svo marga svarta menn í fangelsi fyrir það að hafa reykt marijúana, verið með marijúana á sér en svo játaði hún það sjálf að hafa reykt marijúana og ólíkt Bill Clinton þá dró hún það ofan í sig,“ segir Friðjón.

Viðtalið í heild sinni er aðgengilegt fyrir áskrifendur Morgunblaðsins og hægt er að smella hér til að nálgast þáttinn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert