Eigandi einnar stærstu fjölmiðlasamsteypu heims á nú í leynilegri baráttu við börn sín um framtíð fyrirtækisins, þar sem hann vill að fjölmiðlaveldið missi ekki sína íhaldssömu stefnu eftir andlát sitt.
Auðkýfingurinn Rupert Murdoch á fjölmiðlasamsteypuna News Corp. Undir fjölmiðlaveldið heyra m.a. hinir bandarísku miðlar Wall Street Journal, Fox News og Sky. Þá er auðmaðurinn einnig eigandi 20th Century Fox.
News Corp er metið á 2,6 billjónir króna (2.600.000.000.000 kr). Murdoch, sem er 93 ára, tilkynnti í september að hann hygðist láta af störfum sem stjórnarformaður fyrirtækjanna.
Bandaríska dagblaðið New York Times kveðst hafa dómsskjöl undir höndunum þar sem fram kemur að Murdoch og elsti sonur hans eigi nú í lagalegum deilum við þrjú önnur börn hans.
Fjögur af elstu börnum Murdoch eiga að óbreyttu að fá yfirráð yfir fjölskyldufyrirtækinu þegar hann deyr.
Seint á síðasta ári breytti Murdoch óvænt skilmálum óriftanlegs fjölskyldusjóðs til að tryggja að Lachlan Murdoch, elsti sonur Ruperts og valinn arftaki hans, yrði áfram við völd yfir sjónvarpsstöðvunum og dagblöðum sem heyra undir News Corp, þegar faðirinn fellur frá.
Faðirinn heldur því fram fyrir rétti að hann geti aðeins varðveitt íhaldssama ritstjórnarstefnu samsteypunnar – og þannig verndað viðskiptalegt gildi þess fyrir alla erfingja sína – með því að veita Lachlan einum umboð til að reka fyrirtækið.
Þetta verði að gerast án afskipta hinna systkinanna þriggja, sem hafa ekki eins íhaldssamar stjórnmálaskoðanir og elsti bróðirinn.
Breytingarnar komu systkinunum þremur, James, Elisabeth og Prudence, í opna skjöldu og þau tóku því höndum saman til að stöðva föður sinn. Lachlan tekur þó undir með föður sínum.
Hefur baráttan sem fylgdi verið háð á bak við luktar dyr.
Í júní komst sérfróður meðdómsmaður í Nevada að þeirri niðurstöðu að Murdoch fengi aðeins að gera ofangreindar breytingar ef hann gæti sýnt fram á að hann starfaði í góðri trú og einvörðungu í þágu erfingja sinna, samkvæmt afriti af 48 blaðsíðna úrskurði hans sem NYT hefur undir höndunum.
Réttarhöld verða haldin í september þar sem úrskurðað verður um hvort Murdoch starfi í raun og veru í góðri trú.
Fulltrúar hvorugs aðilans tjáði sig um málið þegar NYT innti þá eftir viðbrögðum. Báðar fylkingar hafa ráðið öfluga lögmenn sér til liðs. Í horni systkinanna stendur lögmaðurinn Gary A. Bornstein, frá Cravath, Swaine & Moore.
Í horni Murdochs er lögmaðurinn Adam Streisand, sem kom að deilum um dánarbú poppstjörnunnar Michaels Jacksons og var lögmaður Britney Spears í máli hennar gegn föður sínum.
Í húfi er framtíð eins valdamesta fjölmiðlafyrirtækis í hinum enskumælandi heimi.
Deilurnar kunna að minna skuggalega mikið á HBO-sjónvarpsseríuna Succession en líklegt þykir að höfundar hennar hafi sótt innblástur í fjölskyldupólitík Murdoch-ættarinnar.