Matapour áfrýjar dómi sínum

Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin …
Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin var af Matapour klukkan 16:10 föstudaginn 25. júní 2002 að norskum tíma, níu klukkustundum áður en hann skaut tvo menn til bana og særði rúmlega 20 í atlögu sinni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Zaniar Matapour, sem fyrstur manna hlaut 30 ára fangelsisdóm í Noregi, hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms Óslóar sem kveðinn var upp 4. júlí í krafti lagabreytingar frá árinu 2015 er setti nýjan refsiramma í sakamálum þar sem ákært er fyrir hryðjuverk.

„Þetta eru mjög dapurleg skilaboð til okkar sem eigum um sárt að binda í málinu,“ segir Espen Evjenth, formaður stuðningshóps fólks sem á einhvern hátt varð fyrir barðinu á Matapour í atlögu hans á Pride-hátíðinni í miðbæ Óslóar 25. júní 2022. „Fyrir vikið bíður okkar ný lota af óvissu og bið eftir að málið verði tekið fyrir auk þess sem sum okkar munu á ný þurfa að bera þá byrði að vitna á nýjan leik í réttarhöldum,“ segir Evjenth enn fremur í fréttatilkynningu stuðningshópsins.

Þykir áfrýjunin sorgleg

Að sögn Sturla Henriksbø héraðssaksóknara, sem norska dagblaðið VG ræðir við, áfrýjar Matapour hvoru tveggja, þeirri refsingu sem honum var dæmd og bótakröfum fórnarlambanna, en honum er gert að greiða upphæð sem nemur um einum og hálfum milljarði íslenskra króna í skaðabætur til Pride-gesta sem særðust í atlögu hans, á þriðja tug, og aðstandenda þeirra tveggja sem hann skaut til bana.

VG hefur ekki tekist að ná tali af Marius Dietrichson verjanda Matapours en réttargæslulögmaður fórnarlambanna, Hege Salomon, kveðst í dag hafa upplýst skjólstæðinga sína um áfrýjunina.

„Þeim, sem ég hef heyrt frá, þykir þetta sorglegt,“ segir réttargæslulögmaðurinn, „nú mun enn lengri tími líða þar til endanleg niðurstaða fæst í málið og [skjólstæðingarnir] geta lagt þennan kafla að baki sér.“

VG

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert