Netanjahú fundar með Biden og Harris í dag

Netanjahú ávarpaði Bandaríkjaþing í gær.
Netanjahú ávarpaði Bandaríkjaþing í gær. AFP/Roberto Schmidt

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, mun í dag funda í Hvíta húsinu í sitthvoru lagi með Joe Biden Bandaríkjaforseta og Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna. Fundirnir koma í kjölfar ávarps hans á Bandaríkjaþingi í gær.

Á fundunum í dag verður m.a. rætt um mögulegt vopnahlé á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas.

Bandaríkin og Ísrael eru nánir bandamenn og hafa Bandaríkin veitt Ísrael bæði pólitískan og hernaðarlegan stuðning. Þrátt fyrir það þá hefur reynt á samband þjóðanna, meðal annars vegna strembins sambands Bidens og Netanjahús.

Vill ná fram vopnahléi og lausn gísla

Biden vill ná fram vopnahléi sem fæli í sér lausn gíslanna áður en forsetatíð hans lýkur.

„Ég mun áfram vinna að því að binda enda á stríðið á Gasa, koma öllum gíslunum heim og tryggja frið og öryggi í miðausturlöndunum,“ sagði Biden í ávarpi sínu til þjóðarinnar í gær.

Biden og Netanjahú funda saman klukkan 17 að íslenskum tíma og munu í kjölfarið hitta fjölskyldur gísla sem Hamas tóku í hryðjuverkum sínum í Ísrael 7. október.

Klukkan 20.30 í kvöld að íslenskum tíma, mun Netanjahú svo funda með Kamölu Harris sem er væntanlegur forsetaframbjóðandi demókrata. Athygli vakti að Kamala Harris sótti ekki ávarpið eins og venjan er þegar báðar þingdeildir koma saman. 

Netanjahú mun funda í sitthvoru lagi með Biden og Harris …
Netanjahú mun funda í sitthvoru lagi með Biden og Harris í Hvíta húsinu í dag. AFP/Samuel Corum

Fundar með Trump á morgun

Á morgun er svo gert ráð fyrir því að hann muni funda með Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, á Mar-A-Lago.

Netanjahú ávarpaði Bandaríkjaþing í gær. Hann hvatti þar til frek­ari sam­stöðu Banda­ríkj­anna og Ísra­els­rík­is og sagði að Ísra­el hefði ekki í hyggju að festa ræt­ur á Gasa­svæðinu. 

Þá skaut Net­anja­hú föst­um skot­um á Íran, sem og fólk sem hef­ur mót­mælt Ísra­el, sem hann sagði vera „nyt­samir sakleysingjar Írans“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert