Sjaldséð skjaldbökutegund í Kristiansand

Sérstakt útlit tegundarinnar Chelodina mccordi hefur heillað marga og eru …
Sérstakt útlit tegundarinnar Chelodina mccordi hefur heillað marga og eru skjaldbökur þessar vinsælar sem gæludýr. Einstaklingur af tegundinni sást síðast villtur í náttúrunni árið 2009. Ljósmynd/Dýragarðurinn í Kristiansand

Á fjörur dýragarðsins í Kristiansand í Suður-Noregi, Dyreparken, hefur nú tvær sjaldgæfar skjaldbökur rekið en þær tilheyra tegundinni Chelodina mccordi sem er í mikilli útrýmingarhættu.

Heita dýr þessi slangehalsskilpadde upp á norsku en á ensku kallast tegundin Roti Island snake-necked turtle, íslenskt heiti ófundið þrátt fyrir að hin fjölfróða Google-völva beitti þar öllum sínum klækjum. Ef til vill nær vitneskja einhverra lesenda lengra.

Tegundin rekur ættir sínar um langa vegu tímans og náði þar með að vera samtímategund risaeðlanna en er orðin allsjaldséð hin síðari ár. Síðasta dæmið um einstakling af tegundinni sem sást villtur og óbeislaður í náttúrunni er frá árinu 2009 og var á indónesísku eyjunni Roti. Nokkrar langhálsaskjaldbökur finnast þó í dýragörðum heimsins og tekur garðurinn í Kristiansand þátt í samstarfsáætlun nokkurra þeirra um að hleypa skjaldbökum af þessari tegund út í náttúruna á næstu árum.

Vinsælar sem gæludýr og ofveiddar

Bökurnar tvær í Dyreparken eru tíu ára gamlar og una hag sínum sem best má vera. „Það er stórskemmtilegt að fylgjast með þeim í þessu umhverfi, vitandi að þær [tegundin] voru uppi á sama tíma og risaeðlurnar,“ segir Tina Haagensen, líffræðingur við Dyreparken, við norska ríkisútvarpið NRK.

Rolf-Arne Ølberg dýralæknir, sem einnig starfar í garðinum, segir fátt vitað um hvort enn séu einstaklingar af þessari sjaldgæfu tegund á vappi einhvers staðar úti í náttúrunni. „Þess vegna er sérstaklega þýðingarmikið að taka á móti þessum dýrum með hliðsjón af verndaráætluninni sem þau eru hluti af,“ segir hann.

Bætir dýralæknirinn því við að ástæða útrýmingarhættunnar sé raunar hve vinsælar skjaldbökurnar með langa hálsinn séu sem gæludýr.

„Fólk heillast af þessu einstaka útliti. Þær hafa hreinlega verið ofveiddar,“ segir Ølberg af örlögum skjaldbökunnar Chelodina mccordi.

NRK

N247

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert