Rússi skipulagði „umfangsmiklar“ aðgerðir fyrir Ólympíuleikana

Hinn fertugi Grjasnov lagði stund á matreiðslunám við Le Cor­don …
Hinn fertugi Grjasnov lagði stund á matreiðslunám við Le Cor­don Bleu-skól­ann í París og hefur búið í borginni í rúman áratug. Á föstudag var hann handtekinn. Samsett mynd/Instagram/AFP

Rússneskur kokkur, fyrrverandi lögmaður og raunveruleikastjarna fékk skipanir frá Kreml um að slá opnunarhátíð Ólympíuleikanna „úr jafnvægi“ á morgun.

Rússinn nefnist Kírill Grjasnov og miðillinn segir hann hafa sterk tengsl við yfirmenn rússnesku alríkislögreglunnar, FSB, og leyniþjón­ustu rússneska hers­ins, GRU.

Franskar öryggisþjónustur hafa nú handtekið Grjasnov og fundið nægileg sönnunargögn til að ákæra hann fyrir njósnir, skrifar rússneski miðillinn Insider.

Insider segir að Grjasnov hafi uppljóstrað um áform sín er hann sat ölvaður við drykkju í Búlgaríu.

„Frakkarnir munu fá opnunarhátíð sem aldrei fyrr,“ er haft eftir Grjasnov úr samtali sem hann átti við yfirmann sinn í FSB fyrir tveimur mánuðum.

„Umfangsmiklar“ aðgerðir gætu leitt til 30 ára í tukthúsi

Hinn fertugi Grjasnov lagði stund á matreiðslunám við Le Cor­don Bleu-skól­ann í París og hann hefur búið í borginni í rúman áratug

Á sunnudaginn var hann handtekinn í París þar sem hann hefur setið undir rannsókn franskra yfirvalda vegna meintra njósna fyrir FSB.

Að sögn franskra yfirvalda var verkefni Rússans að „egna til ófriðar í Frakklandi“. En það virðist hafa mistekist um leið og hann státaði sig af verkefninu ölvaður.

Grjasnov hóf nám við Le Cordon Bleu árið 2010.
Grjasnov hóf nám við Le Cordon Bleu árið 2010. Ljósmynd/Instagram

Í íbúð hans fannst „diplómatískt efni“ að sögn saksóknara í Frakklandi og var hann ákærður fjórum dögum síðar. Verði hann sakfelldur á hann yfir höfði sér 30 ára fangelsisvist.

Frönsk yfirvöld segja hann hafa verið að skipuleggja „umfangsmikla“ aðgerð sem gæti hafa haft „alvarlegar“ afleiðingar.

Fimm þúsund grunaðir um „njósnir“

Þetta gerist á afar spennuþrungnum tímum í Frakklandi, þar sem yfirvöld hafa undanfarnar vikur glímt við ögranir og jafnvel hryðjuverkaógnir úr smiðjum Rússa. Flest hefur þetta tengst stuðningi Frakklands við Úkraínumenn, sem verjast innrás Rússa eftir fremsta megni sem staðið hefur yfir í rúm tvö ár.

Á morgun, 26. júlí, hefjast sumarólympíuleikarnir í París og öryggisráðstafanir hafa verið auknar umtalsvert. Tugþúsundir lögreglumanna hafa verið kallaðar út og um milljón gesta hefur verið skimuð til varúðar.

Að sögn AP hefur 5 þúsundum manns þegar verið meinað að sækja leikana. Þar af er fimmtungur grunaður um „afskipti að utan – við getum sagt njósnir“ að sögn Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands.

Ólympíuleikarnir voru vissulega í skotskífu Grjasnovs, samkvæmt sameiginlegri rannsókn Insider, Le Monde og Der Spiegel.

Alkóhólisminn kom upp um hann

Grjasnov er alkóhólisti, eða svo segja fyrrverandi kærustur hans sem segjast hafa hætt með honum af þeirri sök. Og drykkjan virðist nú hafa orðið honum að falli.

Þann 7. maí var Grjasnov á leið frá Moskvu til Parísar með millilendingu í Ístanbúl. En hann varð svo ölvaður að flugvallarstarfsfólk þar hleypti honum ekki inn í flugvélina.

Þá tók hann frekar leigubíl að landamærum Búlgaríu þar sem bróðir hans á íbúð og dvaldi hann þar í nokkra daga.

Eitt kvöldið varð Grjasnov svo ölvaður að hann sagði við nágranna sinn að hann hefði fengið sérstakt verkefni sem fælist í því að slá Ólympíuleikana úr jafnvægi. Þegar nágranninn sagðist ekki trúa honum tók hann fram FSB-skírteinið sitt, að sögn sjónarvotta.

Einhverra hluta vegna samþykkti nágranninn að aka Grjasnov til borgarinnar Varna. Á leið sinni þangað mun hann hafa fengið símtal frá fulltrúa FSB og tjáð honum að hann hefði fengið til liðs við sig „einn Moldóva frá Kisínev“. Franska lögreglan hefur þetta einnig til rannsóknar. 

Virðist þaulskipulagt

Grjasnov lítur varla út fyrir vera þrautþjálfaður rússneskur hermaður, að minnsta kosti ekki út frá Instagram-reikningi hans að dæma, þar sem hann birtir aðallega myndir af mat eða sjálfum sér.

Hann var einu sinni raunveruleikastjarna í heimalandinu, nánar til tekið í stefnumótaþáttunum „Veldu mig“ sem byggja á hinum víðfrægu raunveruleikaþáttum „The Bachelor“ – eða „Piparsveinninn“ á íslensku.

En svo virðist sem þetta hafi allt verið þaulskipulagt – og þá löngu áður en innrás Rússa í Úkraínu hófst.

Bakgrunnur Grjasnovs sem kokkur er nefnilega starfstitill sem rússneskir njósnarar notast við í síauknum mæli. Starfstitill hans sem slíkur birtist nánast upp úr þurru.

Hann er lögfræðingur að mennt og hóf ekki kokkanám í París fyrr en árið 2010. Fyrir það hafði hann unnið fyrir lúxemborgsk ráðgjafafyrirtæki. En eftir að hann hóf kokkanám vann hann sem kokkur á K2 í frönsku Ölpunum, Michelin-stað sem er í miklu uppáhaldi meðal rússneskra auðkýfinga.

Bróðir hans, Dmtrí Grjasnov, er einnig kokkur og er einnig talin hafa sterk tengsl við GRU. Hann á m.a. sama einkabílstjóra og Andrei Tsjekanov, starfsmaður GRU.  

Grunsamlegir tölvupóstar fundust í pósthólfi Kírils Grjasnovs, m.a. trúnaðargögn um rússneskan majór í GRU og tölupóstsamskipti við hinn breska Robert Skidelsky lávarð, sem er sagður hafa tengsl við ólígarka.

Árið 2012 sendi hann húsráðanda sínum tölvupóst um að hann væri farinn aftur til Mosvku til að starfa sem „opinber starfsmaður“ fyrir „ríkisstjórn Rússa“ en útskýrði ekki nánar. 

Kokkabakgrunnur Grjasnovs er einnig snoðlíkur bakgrunni annars Rússa: Vitalí Kóvalev, sem er hergagnaverkfræðingur að mennt og vann að rannsóknum fyrir fyrirtæki sem smíðar þyrlur handa Rússaher. En hann hætti skyndilega til að læra eldamennsku í Sankti-Pétursborg. Sá var síðar handtekinn í Bandaríkjunum og fannst njósnabúnaður í bíl hans.

„Áreiðanlegur“ og „traustur“

Kl. 6 að morgni þann 19. júlí var húsleit framkvæmd í híbýlum Grjasnovs og hefur hann nú verið ákærður fyrir njósnir „með erlendum yfirvöldum til þess að egna til ófriðar í Frakklandi“. Hann er nú í gæsluvarðhaldi.

„Við höfum sterkan grun um að hann ætlaði að skipuleggja aðgerðir er varða jafnvægisröskun, afskipti og njósnir,“ segir Gérald Darmanin innanríkisráðherra í viðtali við BFM.

Insider tekur fram að Grjasnov lýsir sér á ferilskrá sem „áreiðanlegum“ og „traustum“ liðsfélaga sem hefur „hæfileika til að ná settum markmiðum“. Yfirmenn Grjasnovs í Rússlandi munu sennilega lesa öðruvísi í þessar lýsingar hans núna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert