Verður að vinna Pennsylvaníu: „Hún er á flugi“

Líklega verður ekki komin nákvæm mynd á það hvar leikar standa í kosningabaráttu Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, og Donalds Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana, fyrr en í ágúst.

Í nýjasta þætti Dagmála ræðir Andrés Magnússon við Friðjón R. Friðjónsson almannatengil og Hermann Nökkva Gunnarsson blaðamann um Kamölu Harris og nýjustu vendingar í stjórnmálunum vestanhafs.

Úrslit kosninga í Bandaríkjunum ráðast helst á svokölluðum sveiflu­ríkjum, sem eru ríki þar sem úr­slit kosn­ing­anna gætu farið á ann­an hvorn veg. Að sinni eru sveifluríkin helst talin vera Nevada, Arizona, Georgía, Norður-Karólína, Pennsylvanía, Michigan og Wisconsin.

Segir ryðbeltið mikilvægast

Hermann telur að mikilvægustu sveifluríkin séu í hinu svokallaða ryðbelti; Pennsylvanía, Michigan og Wisconsin.

Hermann gerir ráð fyrir því að góðar kannanir frá sveifluríkjunum verði komnar í ágúst og þá verði komin skýrari mynd á stöðuna.

„Ég myndi gera ráð fyrir því að hún [Kamala Harris] sé búin að bæta fylgið mögulega eitthvað, en hún verði á eftir í helstu sveifluríkjum. Allavega Nevada, Arizona, Georgíu og Norður-Karólínu en að það verði í ryðbeltinu aðeins jafnara. Ég yrði samt ekkert hissa ef að Donald Trump væri enn þá með mjög naumt forskot þar,” segir Hermann.

Hann telur líklegast að ríkin í ryðbeltinu muni skipta mestu máli í kosningunum.

Kamala verður að vinna Pennsylvaníu

Friðjón kveðst hafa það á tilfinningunni að Georgía gæti byrjað að þokast í rétta átt fyrir demókrata út af Kamölu.

„Þeir [demókratar] verða að vinna Pennsylvaníu, það er lykilatriði. Það eru það margir kjörmenn og þú nærð ekki neinu fylgi í öðrum ríkjum þar í kring ef þú ert ekki með Pennsylvaníu með þér. Ég held hins vegar að demókratar muni halda Wisconsin og Michigan. Aðalslagurinn verður um Pennsylvaníu en ég held að ríki eins og Arizona og Nevada verði hluti af slagnum,“ segir Friðjón.

Hann bendir á að það séu þrír mánuðir til kosninga og að það eigi margt eftir að gerast.

„Hún er á flugi núna,“ segir Friðjón.

Viðtalið í heild sinni er aðgengi­legt fyr­ir áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins og hægt er að smella hér til að nálg­ast þátt­inn í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert