Röskun á lestarsamgöngum í Frakklandi hefur ekki aðeins áhrif á opnunarhátíð Ólympíuleikanna heldur er þetta einnig sá tími árs sem margir Frakkar halda í sumarfríið sitt.
„Þetta er eina fríið mitt á árinu,“ sagði grafíski hönnuðurinn Katherine Abby, þegar blaðamaður AFP náði tali af henni á Montparnasse lestarstöðinni í París í morgun þar sem fjöldi farþega stóð og beið upplýsinga um ferðir sem þeir höfðu bókað.
„Ég hef beðið eftir þessu augnabliki í heilt ár, ég væri miður mín ef ég þyrfti að aflýsa ferðinni, sérstaklega útaf ástandinu í París út af Ólympíuleikunum.“
Skemmdarverk voru unnin á hraðlestarkerfi Frakka í nótt. Franska ríkislestarfyrirtækið SNCF segir um umfangsmikla árás að ræða.
Lestarferðum hefur verið frestað og aflýst og hefur röskunin á samgöngukerfum þegar haft áhrif á minnst 800 þúsund viðskiptavini SNCF.