Fá ekki að fylgjast með kosningum í Venesúela

Nicolás Maduro á kosningafundi í vikunni.
Nicolás Maduro á kosningafundi í vikunni. AFP

Panama sakaði í kvöld stjórnvöld í Venesúela um að hindra, að flugvél, með fjóra fyrrverandi forseta landa í Suður-Ameríku, kæmi til landsins. 

José Raúl Mulino, forseti Panama, sagði að flugvél frá Copa Airlines fengi ekki að yfirgefa Panama vegna þess að Venesúela hefði bannað henni að koma inn í loftrými landsins.

Forsetarnir fyrrverandi, sem allir hafa gagnrýnt stjórnarhætti Nicolás Maduros forseta Venesúela ætluðu að fylgjast með kosningum í Venesúela, sem fara fram eftir tvo daga.

Um er að ræða Mireya Moscoso, fyrrum forseta Panama, Miguel Ángel Rodríguez, fyrrverandi forseta Kosta Ríka, Jorge Quiroga, fyrrum forseta Bólívíu og Vicente Fox, fyrrum forseta Mexíkó.  

Diosdado Cabello, formaður stjórnarflokksins í Venesúela, sagði fyrr í vikunni, að forsetarnir fyrrverandi yrðu reknir úr landi ef þeir kæmu þangað, og sagði þá vera óvini Venesúela.

Stjórnvöld í Venesúela drógu í vikunni til baka boð til Alberto Fernandez, fyrrum forseta Argentínu, um að fylgjast með kosningunum eftir að hann hvatti Maduro til að sætta sig við úrslitin, jafnvel þótt hann tapaði. 

Áður hafa stjórnvöld í Venesúela afturkallað boð til Evrópusambandsins um að senda efirlitsmenn en féllust á að eftirlitsmenn frá Sameinuðu þjóðunum og bandarísku stofnuninni Carter Center fái að fylgjast með kosningunum. 

Maduro, sem er 61 árs, sækist eftir því að verða kosinn forseti þriðja sex ára kjörtímabilið í röð. Hann hefur verið sakaður um sívaxandi einræðistilburði og ofsóknir í garð stjórnarandstæðinga. 

Ríkisstjórn hans gerði samkomulag við stjórnarandstöðuna á síðasta ári um að halda frjálsar kosningar í ár og alþjóðlegum eftirlitsmönnum yrði leyft að fylgjast með þeim. Varð þetta til þess að bandarísk stjórnvöld drógu úr viðskiptaþvingunum gagnvart Venesúela.

En Maduro hefur ekki uppfyllt öll þau skilyrði sem sett voru og stofnanir hliðhollar honum bönnuðu Maríu Corinu Machado, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, að bjóða sig fram til forseta. Í stað hennar er lítt þekktur fyrrum sendiherra, Edmundo González Urrutia, sem er 74 ára í framboði og skoðanakannanir benda til þess að hann muni sigra með yfirburðum í kosningunum.

En sérfræðingar, eftirlitsmenn og margir stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar efast um að Maduro, sem reiðir sig á herinn, dómstóla, ríkisstofnanir og kjörstjórnir hliðhollar honum, muni leyfa þau úrslit. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert