Hryðjuverkasamtök heilla unglinga á Tiktok

Hryðjuverkasamtökin ISIS-K hafa sótt í sig veðrið á síðustu árum.
Hryðjuverkasamtökin ISIS-K hafa sótt í sig veðrið á síðustu árum. AFP

Hryðjuverkasamtökin ISIS-Khorasan (ISIS-K) hafa reynt að bólstra lið sitt með ungmennum með því að nota samfélagsmiðla á borð við TikTok. Ný rannsókn sýnir að 38 ungmenni á aldrinum 13 til 19 ára voru meðal 58 meintra gerenda eða skipuleggjenda í 27 ISIS tengdum árásum eða áætlunum sem tókst að koma í veg fyrir.

CNN greinir frá.

Þá sýni tölur frá Europol að fjöldi tilfella þegar það komi að hryðjuverkaárásum eða -áætlunum hafi fjórfaldast á aðeins tveimur árum eða frá 2022.

Af­gansk­ur angi íslamska rík­is­ins, ISIS-Khoras­an, eða ISIS-K, hef­ur verið að sækja í sig veðrið frá stofn­un árið 2015. Fyrstu liðsmenn ISIS-K voru að miklu leyti pak­ist­ansk­ir talíban­ar og fór hóp­ur­inn að vaxa sér­stak­lega þegar liðsmenn ISIS í Írak flúðu þaðan til Pak­ist­an og Af­gan­ist­an í kring­um fall þessa hóps árið 2017.

Ítarlega var fjallað um ISIS-K og stöðuna í Afganistan í fréttaskýringu á mbl.is fyrr í þessum mánuði.

Óttast endurreisn skipulagðrar hryðjuverkastarfsemi

Óttast er að endurreisn skipulagðrar hryðjuverkastarfsemi sé í vændum og vekur auðsjáanleg fjölgun ungs fólks innan raða ISIS-K óhug. Af þeim 27 árásum eða áætlunum sem að skoðuð voru í fyrrnefndri rannsókn, sem framkvæmd var við King's College háskólann í London snerust tvö tilfellana um einhverskonar aðför ungmenna að Ólympíuleikunum í París.

Reuters greindi frá því fyrr í vikunni að frönsk yfirvöld hafi sérstaklega fylgst með og skoðað samfélög farandsfólks frá fyrrum Sovétríkjum til þess að vernda leikana frá ISIS-K. Þau hafi þó ekki komið auga á beinar ógnir. Þess má geta að Tadsíkistan er eitt fyrrum Sovétríkja en ISIS-K hefur herjað sérstaklega á Tadsíka til þess að fá þá með sér í lið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert