Saksóknaraembættið í París hefur hafið rannsókn á spellvirkjunum á járnbrautarkerfið í borginni.
Í tilkynningu frá embættinu segir að rannsókn sé hafin á meintu tilræði til að grafa undan „grundvallarþjóðarhagsmunum“ í kjölfar skemmdarverka sem unnin voru á lestarkerfinu í nótt með þeim afleiðingum að hraðlestarkerfi Frakklands lamaðist.
Þá verður meint tjón af völdum skipulagðs glæpagengis og spellvirkja á sjálfvirku gagnavinnslukerfi jafnframt rannsakað, að sögn Laure Beccuau, saksóknara Parísar.
Franski fréttamiðillin LeMonde greinir frá því að um sé að ræða glæp sem getur varðað allt að 15 ára fangelsisrefsingu og sekt upp á 225.000 evrur, eða tæpar 35 milljónir íslenskra króna.
Til viðbótar segir í tilkynningunni að þeir sem fremji glæpi sem fela í sér „eyðileggingu, eða tilraun til eyðileggingar, með hættulegum hætti í skipulögðum hópi,“ geti átt yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm og sekt upp á 150.000 evrur, eða um 23 milljónir íslenskra króna.
Spellvirkin voru framin í nótt og segir Jean-Pierre Farandou, framkvæmdastjóri franska ríkislestarfyrirtækisin SNCF, árásarmennina hafa kveikt eld í leiðslum sem bera „öryggisupplýsingar til lestarstjóra“.
Franskar öryggissveitir leita nú þeirra sem standa að baki spellvirkjanna og Gabriel Attal, forsætisráðherra Frakklands að um sé að ræða skipulögð og samræmd skemmdarverk gegn ríkislestarfyrirtækinu SNCF.