Lestarkerfið í Frakklandi er í uppnámi aðeins nokkrum klukkustundum áður en opnunarathöfn Ólympíuleikanna er haldin í París eftir að umfangsmikil skemmdarverk voru framin á hraðlestarkerfi Frakka í skjóli nætur.
Franska ríkislestarfyrirtækisin SNCF segir um „umfangsmikla árás“ að ræða þar sem m.a. var kveikt í innviðum.
„Þetta er umfangsmikil árás á stórum mælikvarða til að lama TGV-lestarkerfið,“ segir SNCF.
Verður óumflýjanlegt að aflýsa mörgum ferðum og gæti ástandið varað alla helgina á meðan unnið er að lagfæringum.
„SNCF varð fórnarlamb nokkurra grimmilegra skemmdarverka sem framin voru á sama tíma í skjóli nætur.“
SNCF hvetur farþega til að fresta ferðum og halda sig frá lestarstöðvum.
Enginn hefur lýst ábyrgð á skemmdarverkunum.
Búist er við 300 þúsund áhorfendum og 7.500 íþróttamönnum á opnunarhátíð Ólympíuleikanna sem halda á síðar í dag í París.
Patrice Vergriete samgönguráðherra Frakklands hefur fordæmt árásirnar skemmdarverkin sem hann segir munu setja ferðalög fólks í uppnám.
Í viðtali við BBC segir Amélie Oudéa-Castéra, ráðherra íþróttamála, að enn sé verið að meta hvaða áhrif þetta muni hafa á almenning sem og íþróttamennina sem keppa á leikunum.
Fréttin hefur verið uppfærð.