Nýjustu kannanir benda til þess að Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblikana, sé með naumt forskot á Kamölu Harris, væntanlegan forsetaframbjóðanda demókrata.
Í könnun Wall Street Journal (WSJ) sem birtist í gær mælist Trump með 49% fylgi og Kamala Harris með 47% fylgi.
Í byrjun mánaðar þá mældist Trump með sex prósentustiga forskot á Biden í könnun WSJ og því Harris búin að saxa verulega á forskotið sem Trump hafði á Biden.
Samkvæmt könnunni þá mælist Harris með meira fylgi meðal fólks yngra en 30 ára en Biden var að mælast með. Athygli vekur þó að hún mælist samt með minna fylgi meðal þess aldurshóps en Biden fékk upp úr kjörkössunum árið 2020.
51% svarenda voru sáttir með störf Trumps þegar hann var forseti frá 2017-2021 á sama tíma og 48% sögðust hafa verið ósáttir með störf hans.
Kamala Harris fékk verri niðurstöðu en 41% svarenda sögðust sáttir við störf hennar sem varaforseti og 50% sögðust ósáttir.
Fleiri svarendur treystu Kamölu Harris en Trump til að sjá um málefni fóstureyðinga á sama tíma og fleiri svarendur treystu Trump fram yfir Harris til að sjá um hagkerfið, utanríkismál, innflytjendamál og að taka á glæpum.
RealClear Politics (RCP) tekur saman meðaltal kannana og samkvæmt RCP þá er Trump með 1,7% forskot á Harris á landsvísu að meðaltali.
Gerðar hafa verið átta kannanir á landsvísu sem RCP tekur með í reikninginn síðan að Harris fór í framboð og Harris mælist með meira fylgi en Trump í tveimur af þeim.
Daginn sem Trump mætti Biden í kappræðunum á CNN, 27. júní, þá mældist Trump með 1,5% forskot á Biden.
Daginn sem Biden dró framboð sitt til baka, 21. júlí, þá mældist Trump með 3,1% forskot á Biden.