Tíu létust í árás á Gólanhæðum, þar á meðal börn

Eldflaugaárásin var gerð á knattspyrnuvöll á Gólanhæð í dag.
Eldflaugaárásin var gerð á knattspyrnuvöll á Gólanhæð í dag. AFP

Minnst tíu manns létu lífið, þar á meðal börn, og nítján særðust í eldflaugaárás frá Líbanon á knattspyrnuvöll á hinum hernumdu Gólanhæðum í Sýrlandi í dag.

Ísraelsmenn, sem segja landsvæðið heyra undir sig, kenna Hisbolla-samtökunum um árásina en líbanska ríkisstjórnin fordæmir árásir á almenna borgara.

Ísrael hernam Gólanhæðir sem tilheyrðu Sýrlandi, árið 1967 og hefur frá árinu 1981 haldið því fram að þær séu ísraelskt yfirráðasvæði. Sýrlendingar hafa hins vegar stuðning alþjóðasamfélagsins í kröfum sínum um að svæðið skuli fært þeim á ný.

Eldflaugaárásin var gerð eftir að fjórir vígmenn Hisbolla-samtakanna í Suður-Líbanon féllu í árás Ísraelsmanna.

Viðbragðsaðilar segja í yfirlýsingu að 10 manns á aldrinum 10-20 ára hafi látið lífið og 19 særst. 

Ísraelsher mun bregðast við

„Við munum undirbúa viðbrögð gegn Hisbolla... við munum bregðast við,“ segir Daniel Hagari talsmaður Ísraelshers.

Hann segir að eldflaugaárásin sé sú mannskæðasta á ísraelska borgara síðan 7. október þegar Hamas-liðar réðust inn í suðurhluta Ísraels, drápu um 1.200 manns og hnepptu um 250 í gíslingu á Gasaströndinni. 

Líbanska ríkisstjórnin fordæmir árásir gegn almennum borgurum

Líbanska ríkisstjórnin fordæmdi í dag öll ofbeldisverk og árásir gegn almennum borgurum, eftir að ísraelsk yfirvöld greindu frá því að tíu manns hefðu látið lífið í eldflaugaárásini.

„Það að beina spjótum sínum að almennum borgurum er svívirðilegt brot á alþjóðalögum og stríðir gegn mannúðlegum grundvallarreglum,“ sagði í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.

Fréttin hefur verið uppfærð: Í upphafi var fullyrt að Gólanhæðir heyrðu undir Ísrael, sem er ekki rétt, og ekki var gerð grein fyrir hersetu Ísraelshers á svæðinu og deilum hennar vegna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert