Fordæma árás á Gólanhæðir

Árásin var gerð á fótboltavöll á Gólanhæðum þar sem 10 …
Árásin var gerð á fótboltavöll á Gólanhæðum þar sem 10 börn létu lífið. AFP/Menahem Kahana

Ráðamenn í Rússlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum hafa fordæmt eldflaugaárás frá Líbanon á Gólanhæðir. Talið er að minnst tíu manns á aldrinum 10 til 20 ára hafi látið lífið og nítján særst. 

Í yfirlýsingu frá talsmanni þjóðaröryggusráðs Hvíta hússins segir að árásin hafi verið hræðileg og sýni mikilvægi stuðnings Bandaríkjanna við öryggi Ísraels. Þá segir að stuðningurinn sé einkum mikilvægur til að berjast gegn öllum hryðjuverkahópum sem njóta stuðnings Írans, þar á meðal Hisbolla-samtökin. Reuters greinir frá 

„Bandaríkin munu halda áfram að styðja við allar þær aðgerðir sem munu binda enda á þessar hræðilegu árásir meðfram landamærum Líbanons og Ísraels, sem hlýtur að vera forgangsverkefni,“ segir í yfirlýsingunni.  

Ísrael hernam Gólanhæðir, sem tilheyrðu Sýrlandi, árið 1967 og hafa frá árinu 1981 haldið því fram að þær séu ísraelskt yfirráðasvæði. 

Rússland og Þýskaland fordæma árásina

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefur einnig fordæmt árásina. „Við fordæmum allar hryðjuverjaaðgerðir, sama hver á í hlut.“

Utanríkisráðherra Þýskalands, Annalena Barbock, gaf út yfirlýsingu á X, áður Twitter, þar sem hún fordæmir árásina. 

„Ísraelsmenn hafa átt undir högg að sækja frá Hisbolla og öðrum öfgamönnum í marga mánuði. Þessar óréttlátu árásir verða að hætta án tafar. Það er nú mikilvægt að bregðast við af yfirvegun. Allt of margir hafa látið lífið í þessum átökum,“ segir Baerbock.

Engin yfirlýsing hefur komið frá íslenskum ráðamönnum er varðar árásina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert