Ísrael heitir hefndum en Hisbollah neita sök

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, heimsótti vettvang árásarinnar.
Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, heimsótti vettvang árásarinnar. AFP

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur heitið harkalegum hefndum eftir að eldflaugaárás frá Líbanon varð 12 ungmennum að bana á hinum hernumdu Gólanhæðum á landamærum Sýrlands og Ísraels í gær.

Enn á ný eru blikur á lofti um að stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs geti breiðst út.

Írönsk stjórnvöld hafa mælt Ísraelum gegn því að halda í ný „hernaðarævintýri“ í Líbanon, sem gætu haft í för með sér „ófyrirséðar afleiðingar“.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur fordæmt árásina og hvetur alla aðila til að sýna stillingu.

Öryggissveitir Ísraela á vettvangi í gær.
Öryggissveitir Ísraela á vettvangi í gær. AFP

Hisbollah neitar sök

Ísrael hernam Gólanhæðir sem tilheyrðu Sýrlandi, árið 1967 og hefur frá árinu 1981 haldið því fram að þær séu ísraelskt yfirráðasvæði.

Ísraelsher kallar árásina aftur á móti „mannskæðustu árás á ísraelska borgara“ frá því að árás Hamas í Ísrael hinn 7. október hratt fram stríðinu á Gasaströndinni, sem hefur einnig leitt til flugskeytaárása á milli landamæra Líbanons og Ísraels. Um 40 þúsund manns hafa látið lífið á Gasaströndinni síðan stríðið hófst, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa.

Ísraelar kenna hinum herskáu Hisbollah-samtökum í Líbanon um árásina og segja þau hafa skotið írönsku flugskeyti af gerðinni Falaq-1.

En samtökin, sem njóta stuðnings Írana og hafa reglulega skotið á herstöðvar Ísraela, sögðust ekki hafa nein tengsl við atvikið. Hisbollah viðurkenndu þó að hafa skotið einni slíkri eldflaug í gær að skotmarki ísraelska hersins á Gólanhæð.

Bandarísk stjórnvöld, helsti Bandamaður Ísraela, kenna einnig Hisbollah um árásina.

„Verð sem þau hafa ekki gjaldað áður“

Flugskeyti lenti á knattspyrnuvelli í Majdal Shams á Gólanhæðum, þar sem megni íbúa er arabískumælandi Drúsar.

Árásin varð til þess að Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sneri snemma heim úr heimsókn sinni til Bandaríkjanna.

Við komuna til landsins fór hann strax á fund öryggismálaráðherra, að sögn embættis hans. Hann sagði að Hisbollah „myndi gjalda þungt“ fyrir árásina – „verð sem þau hafa ekki gjaldað áður,“ bætti hann við.

Ísraelska utanríkisráðuneytið sagði að Hisbollah hefði farið yfir öll mörk.

Samtökin hafa nú rýmt nokkrar stöðvar nálægt landamærum að Ísrael og í austurhluta Líbanons, samkvæmt heimildum AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert