Dani bráðvantar netöryggisfólk

Dönsk fyrirtæki bráðvantar fólk með menntun á sviði netöryggismála, annað …
Dönsk fyrirtæki bráðvantar fólk með menntun á sviði netöryggismála, annað hvert danskt fyrirtæki hefur ekki á hæfu fólki á þeim vettvangi að skipa. Myndin er frá O'Hare-alþjóðaflugvellinum í Chicago í kerfishruni Microsoft fyrir rúmri viku. AFP/Anna Moneymaker

Of fáir Danir skrá sig til náms í netöryggisfræðum þótt tæplega 7.000 hefji slíkt nám á þessu ári. Þetta er álit Jens Myrup, prófessors í netöryggi við Álaborgarháskóla, sem ræðir málið við danska ríkisútvarpið DR.

„Þetta snýst um svo marga atburði og getur hreinlega skilið milli feigs og ófeigs,“ segir prófessorinn, „fjármálakerfi okkar eru undir ásamt heilbrigðiskerfi og öllu öðru.“

Laura Klitgaard, formaður stéttarfélagsins IDA, sem hefur starfsfólk í tæknigeira innan sinna raða, tekur undir með prófessornum og segir þörf á að loka öryggisgötum úti um allt.

„Þetta er ergilegt vegna þess að við þurfum virkilega á þeim að halda,“ segir hún og á við nýja nemendur í netöryggismálum, „loka þarf götum alls staðar.“

Eftirspurnin gríðarleg

Nánast daglega setja fyrirtæki sig í samband við IT-Universitet, sem býður nám á háskólastigi í tölvutengdum fræðum hvers kyns, og sækjast eftir að ráða til sín útskriftarnemendur. Þá liggja talsmenn sumra fyrirtækjanna ekki á skoðunum sínum um þá bráðu nauðsyn sem þeir telja á að fjölga menntuðu starfsfólki í faginu – án tafar.

„Eftirspurnin er gríðarleg. Þörfin er í öllum atvinnugreinum hvort sem það er fjármálageirinn, heilbrigðisgeirinn, orkuskiptin eða öryggisgeirinn,“ segir Lene Rehder áfangastjóri skólans við DR.

Skýrsla alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Rambøll, sem út kom í nóvember í fyrra, styður málflutning þeirra sem DR hefur rætt við, en þar kemur fram að annað hvert danskt fyrirtæki og stofnun býr ekki yfir þekkingu til að verjast netárás óprúttinna hakkara. Sú skýrsla er svo studd annarri sem kemur frá netöryggisnefnd danska ríkisins þar sem talað er um „ógn við öryggi okkar“.

Klitgaard stéttarfélagsformaður segir að ekki séu nema nokkrir dagar síðan heimurinn horfði upp á hrun kerfis Microsoft vegna uppfærslu frá fyrirtækinu CounterStrike þótt þar hafi raunar ekki verið um netárás að ræða.

„Þetta sýnir okkur bara að þörfin fyrir hæft starfsfólk, sem getur greint vandamál og lagað þau, er ærin,“ segir formaðurinn.

DR

DRII (umsækjendum ekki hleypt í nám)

Dansk Industri (ný skýrsla CSIS)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert