Fresta ferðum til Beirút vegna hótana Ísraels um hefnd

Flugfélög draga í land eftir hefndarheiti Ísraels.
Flugfélög draga í land eftir hefndarheiti Ísraels. AFP/Daniel Roland

Lufthansa, Air France og Transavia hafa frestað áætlunarflugi til Líbanon af ótta við hefndaraðgerðir Ísraelsmanna eftir að loftárás, sem rekja mátti til Líbanon, varð tólf ungmennum að bana á Gólanhæðum í gær. 

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, hét harkalegum hefndum í kjölfar árásarinnar. Ísrael og Bandaríkin hafa sakað Hisbollah-samtökin um árásina, en samtökin neita sök.  

Fresta til 5. ágúst

Flugfélagið Lufthansa hefur aflýst öllum áætlunarflugi til Beirút, höfuðborgar Líbanon, til 5. ágúst. Flugfélögin Swiss og Austrian Airlines heyra undir Lufthansa og hafa einnig aflýst áætlunarflugi til Beirút. 

Þá hafa flugfélögin Air France og Transavia frestað áætlunarflugi frá París til Beirút til morguns af ótta við hefndaraðgerðir Ísraels. 

Takmörkuð stigmögnun 

Abdallah Bou Habib, utanríkisráðherra Líbanon, segir yfirvöld í Ísrael hafa fullvissað sig um að hefndaraðgerðirnar yrðu innan ákveðinna marka. 

Ríkisstjórn Benjamín Netanjahús, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið grænt ljós á gagnárás hersins og að Netanjahú og Gallant skyldu ákveða hvernig og hvenær árásin færi fram.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert