Hefur fallist á að ræða við FBI

Trump mun mæta í hefðbundið vitnaviðtal vegna tilræðisins á hendur …
Trump mun mæta í hefðbundið vitnaviðtal vegna tilræðisins á hendur honum. AFP/Andrew Harkin

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti hefur fallist á að ræða við bandarísku alríkislögregluna, FBI, vegna banatilræðisins á hendur honum fyrr í mánuðinum. 

Samkvæmt upplýsingum frá alríkislögreglunni er enn óvíst hvað lá að baki árásar byssumannsins, hins 20 ára gamla Thomas Matthew Crooks.

Samkvæmt FBI virðist Crooks, sem var skotinn til bana eftir að hafa hleypt af átta skotum á kosningafundi Trumps í Pennsylvaníu, hafa verið „einfari“ en lögreglan hefur ekki enn borið kennsl á neina samverkamenn.

Fulltrúi FBI, Kevin Rojek, segir að viðtalið við Trump verði „hefðbundið fórnarlambsviðtal eins og við myndum taka við hvert annað fórnarlamb“.

„Við viljum fá hans sjónarhorn,“ segir Rojek.

Gáfaður en átti fáa vini

Starfsfólk alríkislögreglunnar hefur rætt við tugi manna sem þekktu eða höfðu samskipti við Crooks, þar á meðal fjölskyldumeðlimi, vinnufélaga, fyrrverandi kennara og bekkjarfélaga.

„Við höfum komist að því að hann var mjög gáfaður, sótti háskóla og var í vinnu,“ sagði Rojek og bætti við:

„Félagshringurinn hans virðist hafa takmarkast við nánustu fjölskyldu en við teljum að hann hafi átt fáa vini og kunningja.“

Þá hefur komið fram að foreldrar Crooks segjast ekki hafa haft neina vitneskju um áform sonarins en Rojek segir þá frásögn trúverðuga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert