Rúmlega einum og hálfum tíma áður en Donald Trump var sýnt banatilræði höfðu leyniskyttur vakið athygli á byssumanninum þar sem hann þótti haga sér grunsamlega.
SMS-skilaboð sem New York Times hefur undir höndunum gefa til kynna að lögreglumenn hafi vitað af Thomas Crooks allt að 100 mínútum áður en Trump steig á svið. Og Crooks vissi af þeim.
Í raun virðist hann oft hafa verið skrefi á undan lögreglunni og öryggisþjónustunni.
Tæplega 100 mínútum áður en Donald Trump, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi Bandaríkjaforseti, steig á svið í Butler í Pennsylvaníu, tilkynnti leyniskytta á vegum lögreglunnar í Butler að vakt sín væri á enda.
„Strákar ég er farinn. Farið varlega,“ sendi skyttan á samstarfsfélaga sína tvo klukkan 16.19 að staðartíma og fór síðan niður af þakinu þar sem hann hafði verið staðsettur.
Þá tók hann eftir ungum síðhærðum manni sem sat við útibekk fyrir utan svæðið þar sem kosningafundurinn var haldinn. Skyttan lét samstarfsmenn sína vita af þessu:
„Einhver elti okkur og læddist inn og lagði við bílana okkar, bara svo þið vitið af því,“ skrifar skyttan klukkan 16.26.
„Ég er bara að láta ykkur vita því að maður sér mig fara út með riffilinn minn og setja hann í bílinn,“ bætti hann við: „Þannig hann veit að þið eruð þarna uppi[.] Hann situr beint til hægri á útibekk um [45 metra] frá útganginum.“
Klukkan 17.10 sat maðurinn ekki lengur við borðið. 28 mínútum seinna tók önnur skytta á vegum lögreglunnar eftir honum þar sem hann virtist læðast í kringum byggingu nálægt fundinum.
„Ég sá hann líta með fjarlægðarmæli í átt að sviðinu,“ skrifaði hin skyttan og sendi einnig myndir af manninum, sem reyndist vera Crooks.
„Ef þú vilt benda skyttum SS [öryggisþjónustunnar] að hafa varann á. Ég sé hann ekki lengur,“ sagðu hann enn fremur.
„Hringið í aðgerðastjórnina og látið einkennisklæddan [lögregluþjón] skoða þetta.“
31 mínútu síðar var Crooks skotinn til bana eftir að hafa reynt að myrða Donald Trump.
Fyrr hafði komið fram að lögreglan hefði talið Crooks grunsamlegan allt að klukkutíma áður en hann hóf skothríð og varð einum fundargesti að bana. Þessi gögn benda aftur á móti til þess að þau hafi í raun vitað af honum í rúmlega eina og hálfa klukkustund.
Þá hefur einnig komið fram að Crooks hafði flogið dróna yfir svæðið og verið skimaður af öryggisþjónustunni fyrir fundinn. Lögreglumaður er einnig sagður hafa haft afskipti af Crooks rétt áður en hann skaut Trump.