Lestakerfi Frakka aftur komið í eðlilegt horf

Franska hraðlestakerfið er aftur komið í fulla virkni eftir spellvirki …
Franska hraðlestakerfið er aftur komið í fulla virkni eftir spellvirki sem unnin voru á því á föstudag. AFP/Thibaud Moritz

Hraðlestakerfi Frakklands er aftur komið í eðlilegt horf eftir spellvirki sem unnin voru á kerfinu á föstudag. 

Frá þessu greinir Patrice Vergriete, sam­gönguráðherra Frakk­lands. Ekki liggur fyrir hverjir stóðu á bak við spellvirkin, en um var að ræða þrjár íkveikjur á stefnumótandi stöðum lestarkerfisins. 

Þá liggur ekki heldur fyrir hvort íkveikjurnar hafi vísvitandi verið tímasettar þannig að þær myndu hafa áhrif á opnunarhátíð Ólympíuleikanna, sem haldin var seinna sama dag. 

 Allar lestir komnar af stað í morgun 

„Það voru allar lestir komnar af stað í morgun,“ sagði Vergriete í samtali við RTL

Árásirnar höfðu áhrif á 800.000 ferðamenn en „á endanum gátu 700.000 ferðast“ á meðan aflýsa þurfti ferðum 100.000 manna, bætti hann við og útskýrði að spellvirkin komi líklegast til með að kosta milljónir evra. 

Þá greindi Vergriete frá því að 50 drónar, 250 járnbrautaröryggisfulltrúar og 1.000 viðhaldsstarfsmenn hafi verið sendir á vettvang, síðan spellvirkin voru unnin, til að auka öryggi með fram brautarteinum hraðlestarkerfisins, sem eru um 28.000 kílómetra langir. 

Unnin af ásettu ráði 

Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, segir yfirvöld hafa greint ákveðna hópa sem gætu hafa unnið spellvirkin. 

Spellvirkin voru framin af „ásettu ráði, þau voru mjög nákvæm og afar markviss, sagði Darmainin í samtali við frönsku sjónvarpsstöðina France 2. 

„Þetta er hefðbundin tegund aðgerða öfga-vinstrimanna.“

Spurður hvort öfga-vinstrimenn væru meðal þeirra hópa sem yfirvöld hefðu greint svaraði Darmainin því til að það gæti verið. Spurningin væri hins vegar hvort markmiði þeirra sem unnu spellvirkin hefði verið náð.  

Kúgun af hálfu þjóðríkja 

Í kjölfar spellvirkjanna fengu nokkrir fjölmiðlar senda yfirlýsingu frá „óvæntri sendinefnd“ þar sem stuðningi var lýst við spellvirkin og Ólympíuleikarnir gagnrýndir fyrir að „fagna þjóðernishyggju“ og kúgun af hálfu þjóðríkja. 

Darmanin sagði yfirlýsinguna líkjast fullyrðingu en varaði við því að þarna gæti verið á ferð yfirlýsing tækifærissinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert