Forsetakosningar í Venesúela fóru fram í dag. Búist er við því að niðurstöður geti legið fyrir eftir miðnætti á íslenskum tíma þar sem að um rafrænar kosningar er að ræða.
Núverandi forseti landsins og fulltrúi ríkisstjórnarflokksins PSUV, Nicolás Maduro, hefur verið við völd frá 2013 en horfir nú fram á mögulegan ósigur vegna sterks frambjóðanda frá stjórnarandstöðunni, Edmundo González.
PSUV=flokkurinn eða Sameinaði sósíalistaflokkur Venesúela hefur verið við völd í 25 ár og tók Meduro við af Hugo Chávez árið 2013 en Maduro sækist nú eftir endurkjöri í þriðja sinn. Talið er að González sé ein besta von sem að Venesúela hefur átt lengi til þess að steypa Maduro og flokki hans af stóli.
Miklar áhyggjur hafa sprottið upp um lögmæti niðurstaðna kosninganna en talið er að átt hafi verið við niðurstöður síðustu forsetakosninga árið 2018, þær hafi hvorki verið frjálsar né sanngjarnar.
Hefur stjórnarandstaðan komið fulltrúum sínum fyrir á kjörstöðum til þess að sjá til þess að kosningarnar fari heiðarlega fram en bent er á að í landskjörstjórn Venesúela sitji menn sem tryggir séu Maduro og hans flokki.
Af orðum Maduro að dæma megi sjá að hann sé tilbúinn til þess að gera hvað hann getur til þess að missa ekki tangarhald sitt á forsetastólnum.
Mikill fólksflótti hefur orðið frá Venesúela í valdatíð Maduro og hefur efnahagsástandi landsins farið hrakandi. 7,7 milljónir manna hafa nú yfirgefið landið í leit að betra lífi.