Mótmælt í Venesúela: „Þeir stálu kosningunum“

Þó margir óttist afleiðingar þess að mótmæla þá hafa mótmælin …
Þó margir óttist afleiðingar þess að mótmæla þá hafa mótmælin verið fjölmenn í dag. AFP/Raul Arboleda

Íbúar í Venesúela hafa mótmælt í dag í kjölfar þess að þarlend stjórnvöld tilkynntu að sósíalistinn Nicolas Maduro hefði unnið forsetakosningarnar í gær, þvert á það sem útgönguspár og skoðanakannanir bentu til.

Angelika Daron sagðist í samtali við AFP-fréttastofuna hafa starfað sem eftirlitsmaður í kosningunum fyrir stjórnarandstöðuna og að hennar mati hefði Edmundo González Urrutia, forsetaefni stjórnarandstöðunnar, unnið stórsigur.

„Þeir stálu kosningunum,“ sagði hún grátandi á gangstétt í höfuðborginni Caracas.

Gert út af við drauma ungmenna

Landskjörstjórn í Venesúela, sem einungis er skipuð samflokksmönnum Maduros, hefur gefið út að Maduro hafi fengið 51,2% greiddra at­kvæða, en González, hafi fengið 44,2%. Víða hafa þjóðarleiðtogar dregið þessar niðurstöður í efa og hvatt til þess að óháðir eftirlitsmenn fái að telja atkvæðin.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kvaðst hafa verulegar áhyggjur af því að uppgefnar niðurstöður væru ekki hinar raunverulegu niðurstöður.

Mariana Perez, 21 árs gömul búðarkona, sagði að niðurstaðan hefði gert út af við drauma margra ungmenna sem voru vongóð um að bjartari framtíð væri handan við hornið.

Víða hefur verið mótmælt í Venesúela í dag.
Víða hefur verið mótmælt í Venesúela í dag. AFP/Yuri Cortez

„Kjörinn“ til ársins 2031

Á meðan margir óttuðust að mótmæla opinberlega var Jenny Gil á miðri götu í Caracas að berja í eldhúspottinn og að mótmæla.

„Edmundo [González] vann. Ég var viðstödd á kjörstað í Andres Eloy skólanum og við töldum atkvæðin hvert á fætur öðru og hann vann, ég hef sannanir fyrir því að hann vann,“ sagði hún í samtali við AFP.

Maduro hefur verið við stjórnvölinn frá árinu 2013 og nú hefur hann, samkvæmt yfirkjörstjórn stjórnvalda, verið kjörinn til ársins 2031.

Stjórnarandstaðan segir að sinn frambjóðandi hafi fengið um 70% atkvæða …
Stjórnarandstaðan segir að sinn frambjóðandi hafi fengið um 70% atkvæða í raunveruleikanum. AFP/Raul Arboleda

„Harðstjórnin vinnur alltaf“

Staða efnahagsmála í landinu er slæm og hafa sjö milljónir manns, af 30 milljón ríkisborgurum, flúið landið á undanförnum árum.

„Jafnvel þótt ég elski landið mitt, veit ég að eina leiðin út er að yfirgefa [landið],“ sagði hin 34 ára gamla Veruska Donado sem er hjúkrunarfræðingur.

„Harðstjórnin vinnur alltaf og svindl vinnur alltaf,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka