Norðmenn séu edrú við siglingar

Norðmenn ræða hvort breytinga sé þörf á leyfilegum mörkum vínanda …
Norðmenn ræða hvort breytinga sé þörf á leyfilegum mörkum vínanda við stjórn frístundabáta, ríkisstjórnin telur ekki rétt að fara þá leið til að draga úr drukknunarslysum í tengslum við notkun slíkra farartækja. Ljósmynd/Redningsselskapet

„Maður á að vera edrú við siglingar,“ segir Stig Hvide Smith, ritari Konunglega norska bátasambandsins, Kongelig Norsk Båtforbund, við norska ríkisútvarpið NRK, en Norðmenn ræða nú hvort tímabært sé að lækka mörk leyfilegs vínanda í blóði við stjórn frístundabáta. Þau mörk eru nú 0,8 prómill á meðan leyfileg mörk við stjórn vélknúinna ökutækja eru 0,2 prómill.

Það sem af er árinu 2024 hafa rúmlega 40 manns drukknað í Noregi, þar af níu í júnímánuði einum. Ekki er þar eingöngu um slys sem tengjast stjórn báta að ræða en engu að síður er staðreyndin sú að frá árinu 2017 að telja hafa 203 látist í slysum á frístundabátum.

Af þessum fjölda voru 38 prósent undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja, eftir því sem frá greinir í tölfræði norsku siglingamálastofnunarinnar Sjøfartsdirektoratet. Þar segir hins vegar ekkert um hvort áfengismagn í blóði hinna látnu hafi verið undir 0,8 prómilla mörkunum eða yfir þeim.

Banna þurfi siglingar eigi enginn að drukkna

Smith játar að ekki sé auðvelt að taka á drykkju eða vímuefnanotkun stjórnenda frístundabáta og hefur þar lög að mæla. Notkun slíkra báta í Noregi er gríðarlega útbreidd eins og sjá má af vel nýttum smábátahöfnum um land allt. Í Stavanger við vesturströnd Noregs hefur því verið slegið fram – í gamni sem alvöru – að stæði, eða legupláss, fyrir frístundabáta séu töluvert meiri áskorun en hið eilífa bílastæðavandamál.

„Ætlirðu þér að stefna að því að enginn drukkni af [bátatengdum] slysförum þarftu að banna siglingar, svo einfalt er það,“ heldur Smith áfram. Hann segir spurninguna heldur vera hvar vínandamörkin skuli liggja. Bátasambandið konunglega, sem hann talar fyrir, vilji meina að 0,8 prómill séu hæfileg mörk.

Það er Kjell Ingolf Ropstad, þingmaður Kristilega þjóðarflokksins, sem vill lækka leyfileg mörk niður í 0,2 prómill og ná því fram að enginn drukkni í slysum sem tengjast siglingum. Fólk flest sé vant 0,2 prómilla mörkunum þar sem þau gildi á norskum vegum.

Mörkin ekki í umræðunni

Norsk stjórnvöld eru honum hins vegar ekki sammála um aðferðafræðina. Ríkisstjórnin hyggst ekki vinna að því að enginn drukkni með því að lækka vínandamagnið. Þetta segir Even Tronstad Sagebakken, ráðuneytisstjóri í viðskipta- og sjávarútvegsráðuneytinu.

„Vínandamörkin eru ekki í umræðunni hjá okkur núna,“ segir ráðuneytisstjórinn og bætir því við að markmið ríkisstjórnarinnar sé mun frekar að minnka vægi þeirra áhættuþátta sem leiða til drukknunar. Nefnir hann notkun björgunarvesta þar sem veigamikinn þátt.

„Það sem ríkisstjórnin telur mikilvægt er að minnka vægi áhættuþáttanna. Það er það sem liggur til grundvallar þeirri núllsýn [n. nullvisjon] sem við erum að vinna með um þessar mundir,“ segir Sagebakken enn fremur.

Fólk fari að öllu með gát

Sé litið til þeirra drukknunarslysa sem orðið hafa þetta árið, miðað við tölur Siglingamálastofnunar, urðu átján þeirra við fall af landi í sjó eða vatn, tólf tengdust notkun frístundabáta, sex drukknuðu við að baða sig, þar af tveir í baðkeri, einn lést við köfun og einn þegar ökutæki var ekið út í sjó.

Undir lokin segir Smith veigamest að fólk fari að öllu með gát á sjó sem stöðuvötnum. „Fólk á að njóta bátalífsins eins og það nýtur þess að vera í fríi, en þó með vissum formerkjum. Farðu varlega og vertu að sjálfsögðu allsgáður þegar þú stjórnar báti,“ segir ritari Konunglega bátasambandsins.

NRK

Nettavisen

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert