Sænski sjóherinn með eftirlitsátak

Sænski sjóherinn hefur aukna viðveru í skerjagarðinum úti fyrir höfuðborginni …
Sænski sjóherinn hefur aukna viðveru í skerjagarðinum úti fyrir höfuðborginni og fylgist þar með hernaðarmannvirkjum sem eru á bannsvæði gagnvart siglingum almennra borgara. Ljósmynd/Wikipedia.org/JZ

Sænski sjóherinn hefur nú aukið nærveru sína í skerjagarðinum úti fyrir höfuðborginni Stokkhólmi og fylgist þar grannt með því yfir hásumarið að sjófarendur gerist ekki of nærgöngulir við ýmis hernaðarmannvirki.

Heræfingin BALTOPS 2024, sem er stytting á Baltic Operations, var haldin í Eystrasalti í júní og teygði anga sína víða, svo sem að Stokkhólmi. Voru þátttökulöndin alls 20 Atlantshafsbandalagsríki og vélakosturinn rúmlega 50 sjóför og 85 loftför en mennskir þátttakendur voru um 9.000 talsins.

Var þetta í 53. skiptið sem æfingin fór fram en hún er sú stærsta sem haldin er reglulega á Eystrasalti og tóku nýju NATO-ríkin Finnland og Svíþjóð þátt að þessu sinni. Sögulegt þótti að herskip úr Kyrrahafsflota bandaríska sjóhersins tóku þátt í æfingu á evrópsku yfirráðasvæði en það hefur ekki gerst um langt árabil að því er frá var greint á heimasíðu flugherja NATO.

Sæfarar uppfæri sjókort

Þeir Simon og Tiago, sem ekki gefa upp meira en fornöfn sín við sænska ríkisútvarpið SVT, standa í brú brynfleysins H90 og eru þar æðstu stjórnendur.

Kveður Simon flesta sem fara inn á siglingabannsvæði ekki hafa hugmynd um að þeir séu að fremja brot og sé hinum sömu þá leiðbeint um málið. Þyki hins vegar sýnt að brotið sé af ásetningi gegn umferðarreglum hersins geti afleiðingarnar orðið alvarlegar, sektir – jafnvel fangelsi þyki sakir miklar.

Beinir Tiago þeim varnaðarorðum til sjófarenda að uppfæra sjókort sín svo þeir hafi upplýsingar um bannsvæði, hafa auga með gulum bannskiltum og haga staðsetningu bundinna báta þannig að þeir séu sýnilegir.

„Ef við komum ekki auga á borgaralega báta er hætta á að öldugangur frá okkur valdi tjóni á þeim,“ segir hann.

Samtímis þessu verkefni hefur sænski sjóherinn aukið eftirlit sitt með sjávardrónum, fjarstýrðum farartækjum sem ýmist sigla á yfirborðinu eða eru fjarstýrðir kafbátar. Slík farartæki fyrirfinnast hvort tveggja sem tómstundatæki og vopnuð stríðstól svo sem þau sem Úkraínumenn hafa beitt gegn rússneskum herskipum í átökunum í innrásarstríði Rússa í Úkraínu.

SVT

NATO Allied Air Command

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert