Sautján ára gamall sakborningur, sem ákærður er fyrir þrjú manndráp í úthverfunum Västberga og Tullinge í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í október í fyrra var, að yfirsýn geðfróðra matsmanna, ekki haldinn neinum þeim andlegu annmörkum á verknaðarstundu er firrt gætu hann ábyrgð á ódæði sínu.
Telst hann því bera sakarábyrgð á að hafa skotið fertugan fjölskylduföður til bana við Telefonplan-torgið í Västberga og tvær konur í einbýlishúsi í Tullinge degi síðar. Voru börn til staðar í húsinu þar sem konurnar voru myrtar og móðir og barn særðust við árásina daginn áður.
Var um hefndaraðgerð að ræða en í húsinu í Tullinge býr þekktur listamaður sem tengdur er félaga í Zeronätverket-glæpagenginu fjölskylduböndum.
„Fórnarlömb þessara ofbeldisverka eru eftir því sem best er vitað saklaust fjölskyldufólk,“ segir Helena Nordstrand saksóknari í samtali við sænska ríkisútvarpið SVT.
Auk sautján ára sakborningsins, sem er aðalákærði í málinu, en hann var sextán ára á verknaðarstundu, er sextán ára gömul stúlka meðákærð og 22 ára gamall karlmaður, en þau eru grunuð um samverknað með aðalákærða. Sá sem talið er að hafi pantað drápin og útvegað skotvopn var fimmtán ára þegar atburðirnir gerðust.
Gert var hlé á aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi í byrjun júlí, í kjölfar framlagningar saksóknara á sönnunargögnum málsins, svo unnt væri að framkvæma geðrannsókn á aðalákærða og meðákærðu, sextán ára stúlkunni, og kanna þar með hvort þau gengju heil til skógar og væru fær um að skilja afleiðingar gjörða sinna og hljóta þar með refsingu að lögum.