Eftirlýstur hryðjuverkamaður sagður hafa lifað af

Skotmark Ísraelsmanna er eftirlýstur hryðjuverkamaður.
Skotmark Ísraelsmanna er eftirlýstur hryðjuverkamaður. Skjáskot/bandaríska utanríkisráðuneytið

Heimildarmenn AFP og CNN fullyrða að skotmark Ísraels í loftárás í Beirút, höfuðborg Líbanons, hafi lifað árásina af. Um er að ræða háttsettan foringja í hryðjuverkasamtökunum Hisbollah sem er eftirlýstur af Bandaríkjunum.

Rússland og Íran hafa fordæmt Ísrael fyrir árásina.

Skotmarkið sem um ræðir er Fuad Shukr en ísraelski her­inn segir hann bera ábyrgð á loft­árás þar sem 12 börn voru drep­in í bæ á Gólanhæðum í síðustu viku.

715 milljónir króna í boði fyrir upplýsingar

Bandaríska utanríkisráðuneytið býður fimm milljónir dollara, því sem nemur 715 milljónum króna, fyrir hvern þann sem er með upplýsingar um Shukr.

Samkvæmt utanríkisráðuneytinu lék hann lykilhlutverk í sprengjuárás á bandaríska herstöð í Beirút árið 1983 þar sem 241 bandarískur hermaður var drepinn.

Leiðir aðgerðir Hisbollah gegn Ísrael

Fuad Shukr leiðir aðgerðir Hisbollah gegn Ísrael í suður Líbanon, hvar Hisbollah hefur ítrekað stundað árásir á Ísrael síðan 7. október til stuðnings hryðjuverkasamtökunum Hamas.

Stigmögnun varð með árásinni á Gólanhæðum í síðustu viku þar sem sú árás var sú skæðasta gegn Ísrael síðan 7. október. Hisbollah hafa hafnað tengsl­um við árás­ina á Gólanhæðum þar sem, eins og fyrr segir, tólf börn voru drepin og tugir voru særðir.

Flugskeytið frá Íran

Bandaríkin og Ísrael segja Hisbollah hins vegar bera ábyrgð þar sem íranskt flugskeyti, sem aðeins Hisbollah notar, á að hafa verið notað sem og það að því var skotið á loft frá vígi Hisbollah í Líbanon.

Frá því að hryðjuverkasamtökin Hamas réðust inn í Ísrael 7. október hafa Hisbollah og ísraelski herinn skipst reglulega á skotum. Í þeim árásum hafa 22 ísraelskir hermenn verið felldir og að minnsta kosti 25 almennir borgara. Á móti hafa Ísraelsmenn fellt 531 Líbani, þar af 425 Hisbollah-liða og 105 almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert