Ísraelsher hæfði tíu skotmörk í Líbanon á sjö mismunandi svæðum í nótt. Loftárás hersins varð vígamanni Hisbollah-samtakanna að bana að sögn hersins.
Gagnárás Ísraelshers er í kjölfar loftárásar sem gerð var á Gólanhæðir á laugardaginn og varð tólf ungmennum að bana. Loftárásin var rakin til Líbanon og segja yfirvöld í Ísrael og Bandaríkjunum Hisbollah-samtökin bera ábyrgð á henni, en samtökin neita sök.
Að sögn hersins hæfðu skeyti hernaðarleg skotmörk á borð við vopnageymslur samtakanna í suðurhluta Líbanon og urðu einum vígamanni samtakanna að bana.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hét hefndum í kjölfar árásarinnar á Gólanhæðir.
Samkvæmt yfirvöldum í Ísrael var flugskeytið sem hæfði Gólanhæðir af íranskri gerð.