Hárskeri handtekinn fyrir TikTok-myndband

Junior Ngombe er vinsæll á Tiktok í heimalandi sínu Kamerún.
Junior Ngombe er vinsæll á Tiktok í heimalandi sínu Kamerún. AFP/Sebastien Bozon

Maður hefur verið handtekinn í Kamerún fyrir að gagnrýna ríkjandi forseta landsins á TikTok. Hvatti maðurinn samlanda sína til þess að kjósa nýjan forseta í kosningum í landinu á næsta ári, að sögn Mann­rétt­inda­vakt­arinnar, HRW. 

Junior Ngombe, hárskeri og samfélagsmiðlaaðgerðasinni, var handtekinn fyrir utan hárgreiðslustofu sína í borginni Douala í vesturhluta landsins 24. júlí af þremur óeinkennisklæddum mönnum sem sögðust vera leyniþjónustumenn, að því er HRW sagði í tilkynningu sem birt var í gær.

Alræmt fangelsi

Ngombe var í kjölfarið fluttur í fangelsi í höfuðborginni Yaounde, en HRW segir fangelsið alræmt fyrir ómannúðlega meðferð á föngum og jafnvel pyntingar.  

Lögmenn Ngombes segja að hann hefði verið ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar og fyrir að dreifa rangupplýsingum.

Telja þeir að um sé að ræða TikTok-myndskeið Ngombe.

Núverandi forseti landsins, hinn 92 ára Paul Biya, hefur verið forseti Kamerún í 42 ár.

Hann tók við forsetaembættinu árið 1982 þegar hann steig úr embætti forsætisráðherra sem hann hafði gegnt í 7 ár, eða frá árinu 1975. Hann hefur því verið þjóðarleiðtogi í tæplega hálfa öld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert