Hljóp yfir þegar hann heyrði öskur frá stúdíóinu

Tvö börn létu lífið og sex börn særðust í árásinni.
Tvö börn létu lífið og sex börn særðust í árásinni. AFP/Darren Staples

Sex börn og tveir fullorðnir eru enn í lífshættu á sjúkrahúsi eftir stunguárás sem framin var á dansnámskeiði í bænum Southport í Norðvestur-Englandi í gær. 

Tvö börn létust af völdum árásarinnar og er sautján ára drengur grunaður um verknaðinn. Var hann handtekinn og er nú í haldi lögreglu. 

Serena Kennedy, yfirlögregluþjónn lögreglunnar í Merseyside, lýsir hrottalegri aðkomu á vettvangi í samtali við BBC og segir þá lögreglumenn sem voru fyrstir á staðinn hafa verið slegna yfir aðkomunni.

Þarna hafi börn orðið fyrir grimmilegri árás og hlotið alvarlega áverka, segir hún. 

Reyndu að vernda börnin 

„Við trúum því að fullorðna fólkið sem slasaðist hafi verið að reyna að vernda börnin sem ráðist var á. Sautján ára drengur frá Lancashire var síðar handtekinn grunaður um morð og tilraun til manndráps,“ sagði Kennedy. 

Hún sagði hvata árásarinnar ekki liggja fyrir. Árásin væri þó ekki rannsökuð sem hryðjuverk þrátt fyrir að lögreglunni á svæðinu hefði boðist aðstoð við slíka rannsókn. 

Hvatinn til árásarinnar liggur ekki fyrir en lögreglan hefur handtekið …
Hvatinn til árásarinnar liggur ekki fyrir en lögreglan hefur handtekið 17 ára dreng sem grunaður er um verknaðinn. AFP/Darren Staples

Miður sín yfir að hafa ekki geta aðstoðað meira

Hinn 63 ára Jonathan Hayes er einn þeirra sem særðust í árásinni. Hayes, sem er með skrifstofu við hliðina á dansstúdíóinu, hljóp yfir til að aðstoða eftir að hann heyrði öskur frá dansstúdíóinu. 

Frá þessu greindi eiginkona hans í samtali við BBC og bætti við að hann væri á leið í aðgerð á fæti síðar í dag. 

„Hann heyrði öskur og fór út, sá árásarmanninn, sá að hann hafði sært barn og reyndi að taka af honum hnífinn og var stunginn í fótinn,“ útskýrði eiginkona Hayes. 

„Hann er miður sín yfir því að hafa ekki geta aðstoðað meira. Það verður allt í lagi með hann líkamlega en ég veit ekki með andlegu hliðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert