Óljóst um innleiðingu búkmyndavéla

Umræða um búkmyndavélar hófst hjá norsku lögreglunni í kjölfar ofbeldismáls …
Umræða um búkmyndavélar hófst hjá norsku lögreglunni í kjölfar ofbeldismáls í Kongsberg haustið 2022 sem vakti þjóðarathygli og lögregluþjónn hlaut dóm fyrir í apríl. Ljósmynd/Norska lögreglan

Norska ríkislögreglustjóraembættið hefur ekki tekið ákvörðun um hvort lögregluembætti landsins skuli taka svokallaðar búkmyndavélar til prófunar auk þess sem fjármunir til kaupa á þeim liggja ekki á lausu. Frá þessu greinir norska lögreglumálgagnið Politiforum.

Segir þar enn fremur af því að í janúar í fyrra hafi beiðni borist ríkislögreglustjóra frá dómsmála- og viðbúnaðarráðuneytinu þar sem þess var farið á leit að embættið kannaði fýsileika þess að hefja notkun myndavélanna hjá lögreglu.

Tjáði ríkislögreglustjóri norska ríkisútvarpinu NRK það í júní í fyrra að með haustinu stæði til að hefja fyrstu prófanir myndavélanna sem svo yrði haldið áfram með umfangsmeiri prófunum nú í ár.

Rætt eftir Kongsberg-málið

Um er að ræða litlar myndavélar sem festar eru á einkennisfatnað lögreglunnar í brjósthæð og gera þaðan upptöku með hljóði og mynd af því sem fyrir ber á vakt þess sem myndavélina ber. Eru slíkar myndavélar í notkun hjá lögregluliðum víða um heim, meðal annars á Íslandi.

Umræða um notkun búkmyndavéla í Noregi kviknaði eftir lögregluofbeldismál sem upp kom í Kongsberg í október 2022 og lögreglumaður hlaut nýlega dóm fyrir.

„Áður en hægt er að hefja verkferlavinnu þarf að svara spurningum um fjármögnun og forgangsröðun. Þetta hefur enn ekki verið gert,“ segir Cathrine Kveseth Syljuer, lögreglufulltúi hjá ríkislögreglustjóra, við Politiforum en hún hefur yfirumsjón með búkmyndavélaverkefninu fyrir hönd embættisins.

Umtalsverð fjárveiting

Hans-Petter Aasen, ráðuneytisstjóri í dómsmála- og viðbúnaðarráðuneytinu, segir í samtali við Politiforum að ríkisstjórnin geri ráð fyrir umtalsverðri aukafjárveitingu til lögreglu í endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun fyrir yfirstandandi ár.

„Hluti þeirrar fjárveitingar er eyrnamerktur meðal annars kaupum og notkun á nauðsynlegum útbúnaði til að tryggja vandað lögreglustarf, þar á meðal tæknilausnum á borð við búkmyndavélar. Það er ánægjuefni að ríkislögreglustjóri óski frekari upplýsinga um málið,“ segir ráðuneytisstjórinn við Politiforum.

Politiforum
NRK
Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert