Segja skotmarkið fellt og Harris ver árásina

Kamala Harris segir Ísrael hafa rétt á því að verja …
Kamala Harris segir Ísrael hafa rétt á því að verja sig gegn hryðjuverkasamtökum. AFP/Getty Images/Megan Varner

Ísraelsher segir að þeim hafi tekist að fella Fuad Shukr, hátt­sett­an for­ingja í hryðju­verka­sam­tök­un­um Hisbollah, í loftárás á Beirút, höfuðborg Líbanons. Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, segir Ísrael hafa fullan rétt til sjálfsvarnar.

Fjölmiðlar vestanhafs höfðu fyrr í kvöld greint frá því að samkvæmt heimildarmönnum, með tengsl við Hisbollah, hefði Shukr komist lífs af.

Ísra­elski her­inn seg­ir Shukr bera ábyrgð á loft­árás þar sem 12 börn voru drep­in í bæ á Gólanhæðum í síðustu viku. Banda­rík­in og Ísra­el segja Hisbollah bera ábyrgð á árásinni en Hisbollah hafna því.

„Hafa rétt til að verjast hryðjuverkasamtökum“

Kamala Harris, væntanlegur forsetaframbjóðandi demókrata, sagði við blaðamenn í kjölfar árásarinnar að hún styddi rétt Ísraels til að verja eigin borgara.

„Við vitum það sérstaklega að Ísraelar hafa rétt til að verjast hryðjuverkasamtökum, sem er nákvæmlega það sem Hisbollah er,“ sagði Harris við blaðamenn áður en hún hélt á kosningafund í Atlanta-borg í Georgíu-ríki.

„En að öllu þessu sögðu verðum við samt að vinna að diplómatískri lausn til að binda enda á þessar árásir og við munum halda áfram að vinna að því.“

Rússland, Íran og Írak hafa fordæmt Ísrael fyrir árásina ásamt hryðjuverkasamtökunum Hamas og uppreisnarhópi Húta í Jemen. 

Eru reiðubúnir í víðtækari átök

Daniel Hagari, talsmaður ísraelska hersins, sagði Ísrael ekki vilja stigmagna átökin en varaði þó við því að Ísraelsmenn væru reiðubúnir öllu.

„Viðvarandi ógnun og hrottalegar árásir Hisbollah eru að draga íbúa Líbanons og miðausturlanda í víðari átök,“ sagði Daniel Hagari og bætti við:

„Þótt við viljum leysa fjandskap án víðtækara stríðs er Ísraelsher fullkomlega reiðubúinn fyrir hvers kyns atburðarás,“ sagði hann.

Hver er Fuad Shukr?

Fuad Shukr hefur leitt aðgerðir His­bollah gegn Ísra­el í suður Líb­anon, hvar His­bollah hef­ur ít­rekað stundað árás­ir á Ísra­el síðan 7. októ­ber til stuðnings hryðju­verka­sam­tök­un­um Ham­as.

Sam­kvæmt ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu lék hann lyk­il­hlut­verk í sprengju­árás á banda­ríska her­stöð í Beirút árið 1983 þar sem 241 banda­rísk­ur hermaður var drep­inn.

Skotmark Ísraelsmanna er eftirlýstur hryðjuverkamaður.
Skotmark Ísraelsmanna er eftirlýstur hryðjuverkamaður. Skjáskot/bandaríska utanríkisráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert