Sprautuðu málningu um Heathrow-flugvöll

Mótmælendahópurinn Just Stop Oil hefur áður úðað appelsínugulu efni yfir …
Mótmælendahópurinn Just Stop Oil hefur áður úðað appelsínugulu efni yfir tvo jötunsteina sem mynda hið fornsögulega mannvirki Stonehenge. Skjáskot/Twitter

Mótmælendur umhverfissamtakanna Just Stop Oil sprautuðu appelsínugulri málningu víða um flugstöðvarbyggingu 5 á Heathrow-flugvelli í dag. Mótmælendurnir tveir hafa verið handteknir. 

Sky News greinir frá. 

Gjörningurinn er sagður hluti af alþjóðlegum aðgerðum sem að 21 hópur á vegum samtakanna í tólf löndum hafi tekið þátt í. Gjörningar hafi farið fram á 18 flugvöllum hingað til. 

Ekki í fyrsta sinn

Í gær hlekkjuðu mótmælendur frá Just Stop Oil hendur sínar saman með ferðatöskum rétt hjá öryggishliði á Gatwick-flugvelli og gerðu ferðamönnum erfitt fyrir að komast um völlinn. Átta voru handteknir vegna málsins. 

Haft er eftir talsmanni Heathrow-flugvallar sem segi nauðsynlegt fyrir flugiðnaðinn að minnka kolefnisfótspor sitt en að ólöglegar og óábyrgar mótmælaaðgerðir séu ekki rétta leiðin áfram og verði ekki liðnar. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem samtökin framkvæma verknað á borð við þennan. Þau hafa meðal annars sprautað appelsínugulri málningu á einkaþotur og Stonehenge ásamt því að skvetta tómatsúpu á málverk Van Gogh

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert