Boðar fyrsta fundinn með varaforsetaefninu

Búist er við því að Kamala Harris tilkynni varaforsetaefni sitt …
Búist er við því að Kamala Harris tilkynni varaforsetaefni sitt á þriðjudaginn. AFP

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og væntanlegur frambjóðandi demókrataflokksins, hefur boðað til kosningafundar á þriðjudag. Er búist við því að hún tilkynni varaforsetaefni sitt á fundinum. 

Samkvæmt fréttastofu Reuters hefur framboð Harris tilkynnt að fundurinn verði haldinn í Philadelphiu í Pennsylvaníuríki og verði upphaf fjögurra daga kosningaferðalags. Munu Harris og varaforsetaefni hennar einnig funda í Michigan, Arizona, Nevada og Wisconsin. 

Shapiro orðið fyrir valinu?

Er staðsetning fyrsta fundarins talin gefa til kynna að ríkisstjórinn Josh Shapiro, sem hefur verið orðaður við varaforsetastöðuna, hafi orðið fyrir valinu en Shapiro er fæddur og uppalinn í Pennsylvaníu. 

Kann valið á Philadelphiu þó einnig að táknrænt fyrir Demókrataflokkinn, sem vann atkvæði ríkisins til baka frá repúblikönum árið 2020. 

Önnur nöfn sem hefur borið á góma undanfarnar vikur sem möguleg varaforsetaefni Harris eru Andy Beshear ríkisstjóri Kentucky, öldungadeildarþingmaðurinn Mark Kelly frá Arizona, Tim Walz ríkisstjóri Minnesota og Pete Buttigieg samgönguráðherra Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert