Fordæma drápið og vara við stigmögnun átaka

Vanvirðing Ísraela á alþjóðalögum geti kveikt í öllu svæðinu.
Vanvirðing Ísraela á alþjóðalögum geti kveikt í öllu svæðinu. AFP/Mohammed Abed

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, Rússland og utanríkisráðuneyti Sýrlands fordæma drápið á pólitískum leiðtoga Hamas, Ismail Han­iyeh. Rússar og ráðuneyti Sýrlands vara við stigmögnun átaka. 

Hryðju­verka­sam­tök­in Ham­as segja Haniyeh hafa verið drep­inn í árás Ísra­ela í Íran, þangað sem hann fór til að vera viðstaddur embættis­töku nýs for­seta lands­ins.

Ríkisstjórnin í Íran hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna drápsins. 

Fordæmir „morð“ á nánum bandamanni og bróður 

„Megi Guð miskunna bróður mínum Ismail Haniyeh, sem féll sem píslarvottur eftir þessa viðbjóðslegu árás,“ skrifaði Erdogan í færslu á miðlinum X þar sem hann fordæmdi jafnframt „villimennsku síonista.“

Með færslunni fordæmdi Erdogan „svikult morð“ í Teheran á nánum bandamanni sínum og „bróður“.

Stigmögnun geti „kveikt í öllu svæðinu“

Utanríkisráðuneyti Sýrlands fordæmir jafnframt drápið á Haniyeh. Kennir ráðuneytið Ísraelum um og varar við því að stigmögnunin geti „kveikt í öllu svæðinu“

„Sýrland fordæmir þennan hróplega yfirgang síonista,“ sagði í yfirlýsingu ráðuneytisins sem lýsir drápinu á Haniyeh sem „fyrirlitlegu athæfi“. Þá sagði jafnframt í yfirlýsingunni að áframhaldandi vanvirðing Ísraela á alþjóðalögum gæti „kveikt í öllu svæðinu“.

Meðvitaðir um hættulegar afleiðingar drápsins 

Mik­hail Bogdanov, var­aut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands, fordæmdi drápið í samtali við rík­is­miðil­inn RIA Novosti í Rússlandi og varaði við því að drápið gæti hrundið af stað stigmögnum átaka fyrir botni Miðjararhafs. 

„Þetta er algjörlega óásættanlegt pólitískt morð og þetta mun leiða til aukinnar spennu.“

„Það er enginn vafi á því að morðið á Ismail Haniyeh mun hafa afar neikvæð áhrif á samskipti Hamas og Ísraels,“ sagði í sérstakri yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Rússlands.

Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að skipuleggjendur drápsins hefðu verið meðvitaðir um hættulegar afleiðingar þess fyrir botni Miðjararhafs. 

Þá hvatti utanríkisráðuneytið til þess að allir aðilar myndu gæta hófs og forðast frekari skref „sem gætu valdið stórfelldum vopnuðum átökum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert