Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, heitir því að refsa Ísrael harðlega fyrir drápið á Hamas-leiðtoganum Ismail Haniyeh.
Hryðjuverkasamtökin Hamas greindu frá því í morgun að Haniyeh hefði verið drepinn í loftárás Ísraela á Íran. Árásin átti sér stað í Teheran, höfuðborg Írans. Hamas hafa boðað hefndaraðgerðir.
„Með þessari aðgerð undirbjó glæpa- og hryðjuverkastjórn síonista grunninn að hörðum refsingum fyrir sig og við teljum það skyldu okkar að leita hefnda fyrir blóð hans þar sem hann var myrtur á yfirráðasvæði íslamska lýðveldisins Írans,“ segir í yfirlýsingu Khamenei sem IRNA-fréttamiðillinn birti.