Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, segist ekki vilja stríð í kjölfar drápsins á stjórnmálaleiðtoga Hamas samtakanna, Ismail Haniyeh.
Þrátt fyrir það segir hann að Ísrael undirbúi sig fyrir allar mögulegar aðgerðir.
Samkvæmt fréttamiðlum í Íran lést Haniyeh í loftárás í Teheran, höfuðborg Írans. Hann var staddur þar í landi til að vera viðstaddur embættistöku nýs forseta landsins.
Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, hefur hótað hefndaraðgerðum fyrir morðið á Haniyeh. Þá hafa Hamas-samtökin einnig boðað til hefnda.
Haniyeh var búsettur í Katar og hafði verið í samningaviðræðum við Ísraela um friðarsamning á Gasa-svæðinu, en þar hefur verið stríðsástand síðan að Hamas réðst inn í Ísrael 7. október í fyrra.