Matareitrun herjar á starfsfólk TikTok

Samfélagsmiðillinn TikTok er vinsæll um allan heim.
Samfélagsmiðillinn TikTok er vinsæll um allan heim. AFP

Tugir starfsmanna á skrifstofu móðurfyrirtækis TikTok, ByteDance, í Singapúr hafa verið lagðir inn á sjúkrahús vegna matareitrunarfaraldurs.

Heilbrigðis- og matvælaöryggisfulltrúar í borgríkinu rannsaka atvikið, sem varð til þess að 60 manns fengu einkenni maga- og garnabólgu í gær. Fimmtíu og sjö þeirra fengu aðhlynningu á sjúkrahúsi.

ByteDance hefur einnig sagt að það sé að skoða hvað olli því að starfsmenn þess veiktust.

Eftir því sem BBC kemst næst þá er enginn matur útbúinn eða eldaður á skrifstofum ByteDance og að fyrirtækið notar veitingamenn frá þriðja aðila til að útvega mat.

Sautján sjúkrabílar voru sendir að byggingunni í viðskiptahverfi Singapúr til að meðhöndla þá sem höfðu veikst, samkvæmt fjölmiðlum þar.

„Við tökum heilsu og öryggi starfsmanna okkar mjög alvarlega og höfum gripið til tafarlausra ráðstafana til að styðja alla starfsmenn sem finna fyrir veikindum, þar á meðal að vinna með neyðarþjónustu til að veita umönnun,“ sagði talsmaður ByteDance við BBC.

TikTok er með meira en milljarð virkra notenda um allan heim. Það er nú rekið af hlutafélagi með aðsetur í Singapúr og Los Angeles, en er í meirihlutaeigu ByteDance.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert