Samantekt: Harðnandi átök í Mið-Austurlöndum

Haniyeh var lykilmaður í vopnahlésviðræðum.
Haniyeh var lykilmaður í vopnahlésviðræðum. AFP/Mahmoud Zayyat

Líklegt þykir að dráp Ísraelsmanna á Ismail Haniyeh, stjórnmálaleiðtoga Hamas-hryðjuverkasamtakanna, muni leiða til frekari átaka í Mið-Austurlöndum. Hamas-samtökin og Íran hafa hótað hefndum fyrir drápið. 

Ísrael gerði loftárás á Teheran, höfuðborg Írans, í morgun sem varð Haniyeh að bana. Hann var þar í landi til að vera viðstaddur við embættistöku nýs forseta landsins. 

Hver er Ismail Haniyeh?

Haniyeh hefur verið í Hamas-samtökunum frá stofnun þeirra. Hann var forsætisráðherra Palestínu frá árinu 2006 til 2007 eftir að Hamas-samtökin unnu meirihluti í þingkosningum árið 2006.

Þá var hann leiðtogi Hamas á Gasa-svæðinu í 11 ár frá 2006 til 2017. Síðustu ár hefur hann verið búsettur í Katar og hefur hann tekið þátt í vopnahlésviðræðum á Gasa-svæðinu, en þar hefur verið stríðsástand síðan Hamas gerði mannskæða árás á Ísrael 7. október í fyrra. 

Harðnandi átök

Á laugardag gerði Líbanon eldflaugaárás á knattspyrnuvöll á hinum hernumdu Gólanhæðum í Sýrlandi í dag þar að minnsta kosti tíu manns létu lífið, þar á meðal börn. Ísraelsmenn sögðu Hisbollah-samtökin hafa átt í hlut og hótuðu hefndaraðgerðum en samtökin neita sök

Frá árinu 1981 hafa Ísraelsmenn sagt að Gólanhæðir séu ísraelskt yfirráðasvæði en það tilheyrði áður Sýrlandi. 

Í gær, þremur dögum síðar, gerði Ísraelsher loftárás á sjö mismunandi svæði í Líbanon sem varð Faud Shukr, vígmanni Hisbollah-samtakanna, að bana. Þá létust einnig tvö börn í árásinni og særði fjölda fólks. 

Hóta hefndum og undirbúa átök

Undir morgun bárust fregnir að því að Ismail Haniyeh hafi verið drepinn í loftárás Ísraelshers í Íran, en þar var hann til að vera viðstadd­ur embættis­töku nýs for­seta lands­ins. Í kjölfarið hótaði Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans, því að refsa Ísrael fyrir drápið. 

Þá hefur Hamas einnig hótað hefndum fyrir morðið og segja það færa stríðið við Ísrael á „nýtt stig“ og vara við afleiðingum þess fyrir botni Miðjarðarhafs. 

„Þetta morð færir stríðið upp á nýtt stig og mun hafa gríðarlegar afleiðingar fyrir allt svæðið,“ sagði í yfirlýsingu Ezzedine al-Qassam hersveitanna, en bardagamenn þeirra eiga í hörðum bardögum við ísraelska hermenn á Gasa. 

Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, gaf út yfirlýsingu í kjölfarið þar sem hann sagðist ekki vilja harðnandi átök þrátt fyrir morðið. Þó sagði hann að Ísraels undirbúi sig fyrir allar mögulegar hefndaraðgerðir ríkjanna. 

Hvað næst?

Það er erfitt að spá fyrir um hvað verði næst, en líklegt þykir að frekari átök muni brjótast út á næstu dögum. 

Fráfall Haniyeh skilur Hamas-samtökin eftir án opinbers pólitískan leiðtoga sem getur verið mikið áfall fyrir alþjóðlega starfsemi þeirra, en það mun ólíklega hafa áhrif á hernaðarlega getu samtakanna. 

Samkvæmt heimildamanni CNN var Haniyeh lykilmaður í viðræðunum um vopnahlé á Gasa-svæðinu og sagði að fráfall hans gæti flækt samningsviðræðurnar til muna. Fyrr í þessum mánuði var útlit fyrir að samningsviðræðurnar væru að þokast í rétta átt. 

Í kjölfar andlátsins birti Al-Thani, forsætisráðherra Katar og sáttasemjari í viðræðunum, færslu á X þar sem hann spyr:„Hvernig getur sáttamiðlun heppnast þegar annar aðili myrðir samningsmanninn hinu megin við borðið?“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert