„Sorg að þessi góði maður“ hafi verið drepinn

Mynd frá því þegar Sveinn Rúnar hitti Ismail, fyrrverandi leiðtoga …
Mynd frá því þegar Sveinn Rúnar hitti Ismail, fyrrverandi leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hamas. Ljósmynd/Sveinn Rúnar

Sveinn Rúnar Hauksson, fyrrverandi formaður félagsins Ísland-Palestína, er líklega einn af fáum Íslendingum sem fengu að hitta leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Hamas, Ismail Haniyeh, sem var ráðinn af dögum í nótt. Sveinn segir hann hafa verið kurteisan og góðan mann.

„Það er í fyrsta lagi sorg að þessi góði maður og leiðtogi, einn helst leiðtogi Palestínumanna í baráttu fyrir friði og frelsi, skuli hafa verið myrtur í pólitísku morði. Rétt eins og margir forystumanna Palestínumanna á undan honum,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is.

Haniyeh var í Íran til að vera viðstadd­ur embættis­töku nýs for­seta lands­ins. Hann var felldur í nótt og saka Hamas Ísrael um verknaðinn.

Haniyeh er skilgreindur sem hryðjuverkamaður af Bandaríkjunum og alþjóðlegi glæpadómstóllinn var með handtökuskipun á honum fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyninu vegna hryðjuverka Hamas í Ísrael 7. október, þar sem um 1.200 manns voru myrtir og um 250 manns teknir gíslingu.

Segir kynni sín af manninum vera góð

Sveinn hitti Haniyeh árið 2010 og segir að kynni sín af honum hafi verið góð.

Hvernig voru kynni þín af manninum?

„Þau voru afskaplega góð. Mitt annað nafn er Sveinn „seinn“ en ég var ákaflega vel búinn undir þennan fund og mætti stundvíslega og var kominn á undan honum inn í salinn. Hann kom tveim mínútum á eftir og baðst margsinnis afsökunar á því að honum hefði seinkað. Hann var að koma frá hádegisbænunum sínum,“ segir Sveinn.

„Ég fyrigaf honum það strax og síðan settumst við til fundar og ég var búinn að undirbúa þennan fund mjög vel, í raun á margan hátt.“

Sveinn ræddi á fundinum um deilur á milli ólíkra flokka í Palestínu. Kveðst hann meðal annars hafa verið búinn að vera í góðu sambandi við leiðtoga Fatah-hreyfingarinnar fyrir fundinn.

„Ég hafði hitt fólk úr flestum flokkum þarna,“ segir Sveinn.

Ismail fordæmdi Bandaríkin þegar hryðjuverkamaðurinn Osama Bin Laden var felldur. …
Ismail fordæmdi Bandaríkin þegar hryðjuverkamaðurinn Osama Bin Laden var felldur. Sagði hann Bin Laden vera „heilagan arabískan stríðsmann“. AFP/Mohammed Abed

Kurteisi einkennandi fyrir Haniyeh

Sveinn segir að fundurinn hafi farið þannig að hann sjálfur hafi talað í 20 mínútur áður en Haniyeh tók til máls til að ræða eyðileggingu og dauða á Gasa.

„Það sem var einkennandi fyrir þennan mann var þessi kurteisi,“ segir Sveinn.

Hann segist hafa komist að því að kurteisi sé eiginlega ein sú hæsta einkunn sem Palestínumenn gefa hvort öðrum.

„Hann var mjög viðræðugóður, hann hlustaði og spurði spurninga. Hann útskýrði fyrir mér hluti þannig að þetta var bæði árangursríkur, fróðlegur fundur og mjög vinsamlegur á alla kanta.

Ég átti bara eftir að hitta hann einu sinni aftur og það var við mjög skemmtilegt tækifæri því hann bauð til garðveislu til að sýna þakklæti gagnvart „Viva Palestine“. Það voru tvö til þrjúhundurð manns sem höfðu komið með 150 sjúkra- og sendibíla fulla af hjálpargögnum og lyfjum,“ segir Sveinn.

Fordæmdi morðið á Osama Bin Laden

Hann var samt sem áður pólitískur leiðtogi samtaka sem eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af Íslandi, Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Alþjóðlegi glæpadómstóllinn var með handtökuskipun gegn honum vegna stríðsglæpa og glæpi gegn mannkyninu, hann fordæmdi Bandaríkin fyrir að fella Osama Bin Laden – alræmdasta hryðjuverkamann okkar tíma. Hann er skilgreindur sem hryðjuverkamaður af Bandaríkjunum og hann fagnaði hryðjuverkunum gegn Ísrael 7. október.

Er þetta góður maður þegar þetta er ferilskráin?

„Nei, ekki með þennan formála. En ég held að það bendi nú í fyrsta lagi ekkert til þess að hann hafi leitt þessar aðgerðir sem voru 7. október,“ segir Sveinn.

Ég sagði ekki leitt, ég sagði fagna.

„Nei hann virðist ekki hafa leitt þær. Ég hef ekki séð þetta að hann hefði fagnað þeim,“ segir Sveinn.

Dagblaðið Telegraph greinir frá því að Ismail Haniyeh hafi horft á hryðjuverkin 7. október í sjónvarpinu með ánægju. Myndskeið frá skrifstofu hans í Doha sýni Haniyeh og ráðamenn Hamas lofa Guð fyrir framan flatskjá sem sýndi fréttir af hryðjuverkunum.

„Ekki mín orð að hann væri góður maður“

En hvað með alþjóðlega glæpadómstólinn, Osama Bin Laden og allt það. Er þetta góður maður eftir allt sem hann hefur gert, þrátt fyrir það að hann hafi verið kurteis?

„Ég ætla ekki að fara dæma. Ég held að það sé Guðs að dæma ekki mín, hver sé góður og ekki góður. Það voru ekki mín orð að hann væri góður maður,“ segir Sveinn.

Hann segir að Haniyeh hafi barist fyrir frið, hafi viljað viðurkenna Ísraelsríki og verið mikilvægasti maðurinn í sáttaumleitunum Ísraels og Hamas.

„En að dæma um það hvort að einn maður sé góður út frá hans yfirlýsingum, pólitískum og öðru, það ætla ég ekki að gera,“ segir Sveinn.

„Kannski geng ég of langt í því að teikna upp einhverja sæta mynd af honum. Ég er bara reyna segja þér það að ég hitti manninn í tvö skipti,“ segir Sveinn.

Hætta á stigmögnun

Sveinn segir óneitanlega vera hættu á því að átökin stigmagnist í kjölfar þess að Haniyeh var ráðinn af dögum.

Hvað vilt þú sjá gerast í kjölfarið?

„Þetta viðbjóðslega morð á honum er náttúrulega ekkert annað en framhald af því sem við erum að horfa upp á á hverjum degi á Gasa. Það sem er svo alvarlegt við það er að þetta er mikið áfall fyrir þá sem vinna að friðarumleitunum á svæðinu,“ segir Sveinn.

Hann segir að Haniyeh hafi ekki verið virkur leiðtogi Hamas á Gasa en að hann hafi samt sem áður verið helsti samningamaður Hamas.

„Hann vildi semja og gera varanlegt vopnahlé við Ísrael,“ segir Sveinn.

Sjálfur segir Sveinn að hann vilji sjá tafarlaust vopnahlé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert