Gershkovich og Whelan óvænt á barmi frelsis

Evan Gershkovich hlýðir á dómsuppkvaðninguna júlí við Sverdlovsk-dómstólinn í Jekaterinburg. …
Evan Gershkovich hlýðir á dómsuppkvaðninguna júlí við Sverdlovsk-dómstólinn í Jekaterinburg. Sextán ár fyrir njósnir var niðurstaða dómara. AFP/Alexander Nemenov

Banda­ríski blaðamaður­inn Evan Gers­h­kovich, sem hlaut 16 ára dóm í Rússlandi í júlí, verður mögulega látinn laus úr haldi sem hluti af umfangsmiklum fangaskiptum á milli Rússlands, Bandaríkjanna og Þýskalands.

Breska dagblaðið Telegraph er á meðal þeirra miðla sem greina frá fangaskiptunum.

Kemur fram að Gershkovich væri þá hluti af fangaskiptum sem innihaldi 20 til 30 pólitíska fanga og blaðamenn sem séu í haldi í Rússlandi. 

Blaðamaðurinn hlaut 16 ára dóm í Jeka­ter­in­burg í Rússlandi fyr­ir njósn­ir sem hann var hand­tek­inn fyr­ir í mars í fyrra. Rússnesk yfirvöld sökuðu hann um að vinna fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA og hefur Gershkovich neitað sök en hann starfaði sem frétta­rit­ari Wall Street Journal í Rússlandi.

Gers­h­kovich, sem er 32 ára gam­all, var sakaður um að hafa verið að afla sér upp­lýs­inga um fram­leiðslu og starf­semi her­gagna­verk­smiðjunn­ar Ural­vagonza­vod í Úral­fjöll­um. Bent hefur verið á að blaðamaðurinn væri eins konar skiptimynt fyrir rússnesk stjórnvöld og hyggðust þau nýta hann í fangaskipti við Vesturlönd.

Paul Whelan einnig á lista

Deadline greinir einnig frá því að Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan sé á lista yfir þá sem verði mögulega hluti af þessum fangaskiptum. Whelan er fyrrverandi liðsmaður í bandaríska sjóhernum og var handtekinn, sakaður um og dæmdur fyrir njósnir í Rússlandi.

Whelan var handtekinn 2018 og dæmdur til 16 ára fangelsisvistar árið 2020. Hann hefur ítrekað beðið um að bandarísk stjórnvöld beiti sér frekar í máli sínu en lengi vel virtist hann ætla að fá lausn á sama tíma og körfuboltakonan Brittney Griner. 

Griner var handtekin árið 2022 Grin­er á flug­vell­in­um í Moskvu eft­ir að rafrettu­hylki með kanna­bisol­íu fannst í far­angri henn­ar.

Hand­tak­an átti sér stað aðeins nokkr­um dög­um áður en Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. 

Í staðinn fyrir að afhenda Griner fengu Rússar alræmda vopnasalann Victor Bout afhentan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert