Bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich, sem hlaut 16 ára dóm í Rússlandi í júlí, verður mögulega látinn laus úr haldi sem hluti af umfangsmiklum fangaskiptum á milli Rússlands, Bandaríkjanna og Þýskalands.
Breska dagblaðið Telegraph er á meðal þeirra miðla sem greina frá fangaskiptunum.
Kemur fram að Gershkovich væri þá hluti af fangaskiptum sem innihaldi 20 til 30 pólitíska fanga og blaðamenn sem séu í haldi í Rússlandi.
Blaðamaðurinn hlaut 16 ára dóm í Jekaterinburg í Rússlandi fyrir njósnir sem hann var handtekinn fyrir í mars í fyrra. Rússnesk yfirvöld sökuðu hann um að vinna fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA og hefur Gershkovich neitað sök en hann starfaði sem fréttaritari Wall Street Journal í Rússlandi.
Gershkovich, sem er 32 ára gamall, var sakaður um að hafa verið að afla sér upplýsinga um framleiðslu og starfsemi hergagnaverksmiðjunnar Uralvagonzavod í Úralfjöllum. Bent hefur verið á að blaðamaðurinn væri eins konar skiptimynt fyrir rússnesk stjórnvöld og hyggðust þau nýta hann í fangaskipti við Vesturlönd.
Deadline greinir einnig frá því að Bandaríkjamaðurinn Paul Whelan sé á lista yfir þá sem verði mögulega hluti af þessum fangaskiptum. Whelan er fyrrverandi liðsmaður í bandaríska sjóhernum og var handtekinn, sakaður um og dæmdur fyrir njósnir í Rússlandi.
Whelan var handtekinn 2018 og dæmdur til 16 ára fangelsisvistar árið 2020. Hann hefur ítrekað beðið um að bandarísk stjórnvöld beiti sér frekar í máli sínu en lengi vel virtist hann ætla að fá lausn á sama tíma og körfuboltakonan Brittney Griner.
Griner var handtekin árið 2022 Griner á flugvellinum í Moskvu eftir að rafrettuhylki með kannabisolíu fannst í farangri hennar.
Handtakan átti sér stað aðeins nokkrum dögum áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.
Í staðinn fyrir að afhenda Griner fengu Rússar alræmda vopnasalann Victor Bout afhentan.