„Ég skrifa þetta í felum þar sem ég óttast um líf mitt og frelsi, frelsi samlanda minna, vegna einræðisins undir forystu Nicolás Maduros [forseta Venesúela].“
Þetta skrifar Maria Corina Machado, helsti stjórnarandstæðingur Maduros, í aðsendri grein í dagblaðið Wall Street Journal.
Machado er formaður Lýðræðisbandalagsins, helsta stjórnarandstöðuflokks Maduro, og átti að vera forsetaframbjóðandi í nýafstöðnum forsetakosningum.
Stjórnvöld Maduros bönnuðu henni aftur á móti að bjóða sig fram og þess í stað varð Edmundo Gonzáles Urrutia forsetaefni flokksins.
Machado ítrekaði í greininni að Edmundo Gonzáles hefði verið réttmætur sigurvegari og sagði hann hafa unnið 67% atkvæða miðað við afrit sem hún kveðst hafa undir höndum um niðurstöðurnar frá 80% af öllum kjörstöðum landsins.
Landskjörstjórn í Venesúela, sem einungis er skipuð samflokksmönnum Maduros, hefur gefið út að Maduro hafi hlotið 51,2% greiddra atkvæða, en Gonzáles 44,2%.
Víða hafa þjóðarleiðtogar dregið þessar niðurstöður í efa og hvatt til þess að óháðir eftirlitsmenn fái að telja atkvæðin.
Landskjörstjórn í Venesúela á enn eftir að birta nákvæmt niðurbrot á niðurstöðum kosninganna.
Maduro hefur farið fram á að hæstiréttur úrskurði um kosningarnar og segist hafa sannanir fyrir sigri sínum og að hann væri „tilbúinn að leggja fram 100 prósent af gögnunum“.
„Þið eruð með blóð á höndunum,“ sagði Maduro á miðvikudag og vísaði til Gonzáles og Machado. „Þau ættu að vera á bak við lás og slá.“
Machado skrifar í greininni sinni að flestir stjórnarandstæðingar séu nú í felum.
„Ég gæti verið handtekin á sama tíma og ég skrifa þessi orð,“ skrifaði Machado og kallaði eftir því að þeir sem eru lýðræðissinnar og andsnúnir forræðishyggju styðji við bakið á venesúelsku þjóðinni.