Í felum og óttast um líf sitt

Machado var meinað að bjóða sig fram gegn Maduro.
Machado var meinað að bjóða sig fram gegn Maduro. AFP/Yuri Cortez

„Ég skrifa þetta í fel­um þar sem ég ótt­ast um líf mitt og frelsi, frelsi samlanda minna, vegna ein­ræðis­ins und­ir for­ystu Nicolás Maduros [for­seta Venesúela].“

Þetta skrif­ar Maria Cor­ina Machado, helsti stjórn­ar­and­stæðing­ur Maduros, í aðsendri grein í dag­blaðið Wall Street Journal.

Machado er formaður Lýðræðis­banda­lags­ins, helsta stjórn­ar­and­stöðuflokks Maduro, og átti að vera for­setafram­bjóðandi í ný­af­stöðnum for­seta­kosn­ing­um.

Stjórn­völd Maduros bönnuðu henni aft­ur á móti að bjóða sig fram og þess í stað varð Ed­mundo Gonzá­les Urrutia for­seta­efni flokks­ins.

Seg­ir Gonzá­les hafa unnið kosn­ing­arn­ar

Machado ít­rekaði í grein­inni að Ed­mundo Gonzá­les hefði verið rétt­mæt­ur sig­ur­veg­ari og sagði hann hafa unnið 67% at­kvæða miðað við af­rit sem hún kveðst hafa und­ir hönd­um um niður­stöðurn­ar frá 80% af öll­um kjör­stöðum lands­ins.

Lands­kjör­stjórn í Venesúela, sem ein­ung­is er skipuð sam­flokks­mönn­um Maduros, hef­ur gefið út að Maduro hafi hlotið 51,2% greiddra at­kvæða, en Gonzá­les 44,2%.

Víða hafa þjóðarleiðtog­ar dregið þess­ar niður­stöður í efa og hvatt til þess að óháðir eft­ir­lits­menn fái að telja at­kvæðin.

Lands­kjör­stjórn í Venesúela á enn eft­ir að birta ná­kvæmt niður­brot á niður­stöðum kosn­ing­anna.

Edmundo Gonzáles tapaði kosningunum samkvæmt stjórnvöldum Maduros.
Ed­mundo Gonzá­les tapaði kosn­ing­un­um sam­kvæmt stjórn­völd­um Maduros. AFP/​Raul Ar­bo­leda

Maduro vill fang­elsa þau

Maduro hef­ur farið fram á að hæstirétt­ur úr­sk­urði um kosn­ing­arn­ar og seg­ist hafa sann­an­ir fyr­ir sigri sín­um og að hann væri „til­bú­inn að leggja fram 100 pró­sent af gögn­un­um“.

„Þið eruð með blóð á hönd­un­um,“ sagði Maduro á miðviku­dag og vísaði til Gonzá­les og Machado. „Þau ættu að vera á bak við lás og slá.“

Machado skrif­ar í grein­inni sinni að flest­ir stjórn­ar­and­stæðing­ar séu nú í fel­um.

„Ég gæti verið hand­tek­in á sama tíma og ég skrifa þessi orð,“ skrifaði Machado og kallaði eft­ir því að þeir sem eru lýðræðissinn­ar og and­snún­ir for­ræðis­hyggju styðji við bakið á venesú­elsku þjóðinni.

Sósíalistinn Nicolás Maduro segir að hans helstu stjórnarandstæðingar ættu að …
Sósí­alist­inn Nicolás Maduro seg­ir að hans helstu stjórn­ar­and­stæðing­ar ættu að vera á bak við lás og slá. AFP/​Federico Parra
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert