Stærstu fangaskipti Vesturlanda og Rússlands frá tímum kalda stríðsins áttu sér stað í dag. Rússar slepptu sextán úr haldi gegn því að fá tíu til baka. Meðal þeirra fanga sem Rússar fá til baka eru netþrjótar, njósnarar og einn morðingi.
Í skiptum fá Bandaríkjamenn og Þjóðverjar meðal annars blaðamenn, mannréttindasinna og fólk sem hefur verið dæmt fyrir „öfgahyggju“ í Rússlandi.
Lykillinn að fangaskiptunum var að frelsa rússneska morðingjann Vadím Krasíkov sem dæmdur var fyrir manndráp í Þýskalandi eftir að hann skaut leiðtoga uppreisnarmanna til bana í Berlín árið 2019.
Þýsk stjórnvöld segja að ákvörðunin um að sleppa honum hafi ekki verið tekin af léttúð.
Í ávarpi sínu um fangaskiptin þakkaði Joe biden Þjóðverjum fyrir sinn hlut í ferlinu, en Rússar gerðu kröfu um að Þjóðverjar myndu frelsa Krasíkov.
„Þær kröfur sem þeir [Rússar] gerðu til mín kröfðust þess að ég fengi Þjóðverja til að gefa verulega eftir, sem þeir töldu sig upphaflega ekki geta gert vegna viðkomandi einstaklings,“ sagði Joe Biden.
Bandaríski blaðamaðurinn Evan Gershkovich og Paul Whelan, fyrrverandi liðsmaður bandaríska sjóhersins, voru hluti af fangaskiptunum. Gershkovich hafði verið í haldi Rússa í 491 dag og Whelan hafði verið í haldi Rússa í fimm ár.
Joe Biden Bandaríkjaforseti birti fyrir skömmu mynd af Bandaríkjamönnunum sem nú eru frjálsir og í flugi á leið til Bandaríkjanna.
„Eftir að hafa mátt þola ólýsanlegar þjáningar og óvissu eru Bandaríkjamennirnir, sem voru í haldi í Rússlandi, óhultir og frjálsir og hafa hafið ferðalag sitt aftur í faðm fjölskyldna sinna,“ skrifaði Joe Biden á Twitter.
Meðal fanganna sem Vesturlöndin hafa fengið frjálsa frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi eru blaðamenn, baráttumenn fyrir mannréttindum, stuðningsmenn Alexei Navalnís heitins, pistlahöfund og stjórnarandstæðing Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.
Þá voru aðrir sakfelldir og kærðir fyrir „öfgahyggju“, fyrir að vera með kanabiss-gúmmíbangsa og fyrir meintar njósnir.
Listamaðurinn Aleksandra Skochilenko var dæmd í 7 ára fangelsi árið 2023 eftir að hafa sett límmiða á verðmiða í matvöruverslun með áróðri gegn stríðinu í Úkraínu.
Rússar fá njósnara, netþrjóta, meintan smyglara og dæmdan morðingja til baka.
Meðal þeirra er Roman Seleznev, sonur rússnesks þingmanns, sem var sakfelldur í Bandaríkjunum og dæmdur í 27 ára fangelsi fyrir að hakka greiðslukortanúmer.
Saksóknarar kölluðu hann einn alræmdasta greiðslukortaþjóf sögunnar, en hann hakkað sig inn í hundruð fyrirtækja í Bandaríkjunum og víðar um heim, stal greiðslukortagögnum og seldi þau á netinu. Kostaði þetta fyrirtækin 169 milljónir dollara, eða sem nemur ríflega 24 milljörðum króna.