Svíþjóð og Bandaríkin sameinast um kjarnorku

Kjarnorkuver. Mynd úr safni.
Kjarnorkuver. Mynd úr safni. AFP

Svíþjóð hefur undirritað samning við Bandaríkin um stuðning við uppbyggingu kjarnorku í báðum löndum. 

Löndin munu þannig deila reynslu sinni þegar kemur að stefnumótun, rannsóknum og nýsköpun sem tengjast birgðakeðjum, fjármögnunarlíkönum, færniframboði og þróun háþróaðs kjarnorkueldsneytis, að því er fram kemur í tilkynningu frá ríkisstjórn Svía. 

„Þetta er gott fyrir Svíþjóð

„Þetta er gott fyrir Svíþjóð, Bandaríkin, vinnumarkaðinn og samkeppnishæfni,“ er haft eftir Ebbu Busch orkumálaráðherra í tilkynningunni. 

Þá segir jafnframt að Svíþjóð og Bandaríkin hafi mikla reynslu af kjarnorku og að bæði lönd hafi uppi áform um að þróa hana áfram. 

Áform um stórfelldar stækkanir næsta áratuginn 

Í nóvember á síðasta ári lagði ríkisstjórnin fram áform með vegvísi að stóraukinni nýtingu kjarnorku á næstu áratugum til að mæta vaxandi eftirspurn á raforku. 

Fyrsta skrefið er að byggja kjarnakljúfa með heildarafkastagetu upp á að minnsta kosti 2.500 megavött fyrir árið 2035 og síðan enn frekari stækkun fyrir árið 2045. 

Í Svíþjóð eru nú reknir sex kjarnakljúfar í þremur mismunandi kjarnorkuverum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert