Tíu þolendum mansals bjargað á Comic-Con

Comic-Con í San Diego er einn stærsti dægurmenningarviðburður heims.
Comic-Con í San Diego er einn stærsti dægurmenningarviðburður heims. AFP

Leynilögreglumenn björguðu tíu fórnarlömbum mansals, þar á meðal 16 ára stúlku, á myndasöguráðstefnunni Comic-Con í Kaliforníuríki Bandaríkjanna í síðustu viku. 

Frá þessu greinir ríkissaksóknari Kaliforníu í yfirlýsingu. Lögreglusveit skipuð lögreglumönnum frá San Diego, starfsmönnum alríkislögreglunnar og leyniþjónustumönnum handtók 14 manns sem hugðust kaupa vændi á stórum viðburði á vegum ráðstefnunnar.

Comic-Con í San Diego er einn stærsti dægurmenningarviðburður heims. Um 135 þúsund manns eru talin hafa sótt ráðstefnuna í ár en hún stóð yfir frá fimmtudegi til sunnudags.

Stórir viðburðir kjörið tækifæri til að níðast á börnum

„Því miður notfæra þeir sem stunda mansal sér stóra viðburði á borð við Comic-Con til að misnota fórnarlömbin sín til eigin gróða,“ segir í yfirlýsingu.

Ráðstefnan hóf sögu sína sem grasrótarviðburður fyrir myndasöguáhugamenn en hefur stækkað gríðarlega og mæta þangað nú margar af stærstu kvikmyndastjörnum heims.

Lögreglumennirnir settu upp auglýsingar um vændiskaup til þess að góma menn sem ætluðu að falast eftir kynlífi.

Christopher Davis hjá heimavarnarráðuneytinu segir að glæpamenn líti oft á fjölsótta viðburði eins og Comic-Con sem kjörið tækifæri til að níðast á börnum undir lögaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert